Stjórnmálaflokkarnir fá alls 648 milljónir króna í framlög fyrir árið 2018, en stjórnmálasamtök sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn á þing eða náð að lágmarki 2,5% atkvæða eiga rétt á framlögum.

Þar sem upphæðin skiptist hlutfallslega milli flokka eftir atkvæðamagni í síðastliðnum kosningum fær Sjálfstæðisflokkurinn 166 milljóniir frá ríkinu að því er sést á heimasíðu stjórnarráðsins.

Næst mest framlög fær Vinstrihreyfingin - grænt framboð sem fær rúmar 111 milljónir króna, loks kemur Samfylkingin með rúmar 79 milljónir, Miðflokkurinn með 71 milljón og Framsóknarflokkurinn með tæplega 70,5 milljónir.

Píratar fá svo 60,5 milljónir, Flokkur fólksins fær 45 milljónir og Viðreisn 44 milljónir. Samtals fá því ríkisstjórnarflokkarnir 347,5 milljónir króna í stuðning frá ríkinu, en stjórnarandstaðan 229 milljónir króna.

Hér má sjá nánari skiptingu þeirra 648 milljóna sem flokkarnir skipta milli sín:

  • Sjálfstæðisflokkur er með 25,6% og fær 166.023.424 krónur.
  • Vinstrihreyfingin - grænt framboð er með 17,1% og fær 111.097.777 krónur.
  • Samfylkingin er með 12,2% og fær 79.258.862 krónur.
  • Miðflokkurinn er með 11,0% og fær 71.495.152 krónur.
  • Framsóknarflokkurinn er með 10,9% og fær 70.422.909 krónur.
  • Píratar er með 9,3% og fær 60.491.259 krónur.
  • Flokkur fólksins er með 7,0% og fær 45.241.953 krónur.
  • Viðreisn er með 6,8% og fær 43.968.664 krónur.