Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 19,8% í október sem er einu og hálfu prósentustigi meira en við síðustu mælingu MMR í september. Hinir ríkisstjórnarflokkarnir tveir tapa hins vegar fylgi, Vinstri grænir fara úr 12,8% í 10,3% og Framsóknarflokkurinn (úr  11,8% niður í 10,1%.

Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 42,0% en mældist 43,7% í september.

Samfylkingin er ekki lengur næst stærsti flokkurinn, eins og mælingunni frá því í september, en fylgi flokksins dalar og fer úr 14,8% niður í 14,1% milli mánaða. Næst stærsti flokkur landsins er skv. mælingunni Miðflokkurinn sem jók fylgi sitt um tæp þrjú prósentustig milli mælinga upp í 14,8%.

Fylgi Viðreisnar jókst milli mánaða úr 10,2% upp í 11%. Einnig jókst fylgi Flokks fólksins úr 4% upp í 5,6%. Þá var mældist fylgi Sósíalistaflokks Íslands nú 3,1% en var 2% í september.

Aðrir flokkar töpuðu fylgi og þar af var fylgistapið mest hjá Pírötum sem fóru úr 12,4% niður í 8,8%.

Úrtak mælingarinnar náði til einstaklinga 18 ára og eldri, sem valdir voru handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Svarfjöldi var 2.124 einstaklingar. Mælingin var framkvæmd 30. september til 9. október 2019.

Samtals voru 81,5% sem gáfu upp afstöðu til flokka, aðrir kváðust óákveðnir (5,9%), myndu skila auðu (6,7%), myndu ekki kjósa (2,4%) eða vildu ekki gefa upp afstöðu sína (3,5%).

Lagðar voru allt að þrjár spurningar fyrir svarendur um stuðning þeirra við stjórnmálaflokka. Allir voru spurðir spurningar 1: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. Þeir sem svöruðu „Veit ekki/óákveðin(n)“ við spurningu 1 voru því næst spurðir spurningar 2: „En hvaða flokkur yrði líklegast fyrir valinu?“. Ef aftur var svarað „Veit ekki/óákveðin(n)“ þá voru þátttakendur að lokum spurðir spurningar 3: „Hvort er líklegra að þú kysir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern hinna flokkanna?“. Fjölda þeirra sem svaraði "einhvern hinna" í spurningu 3 var skipt milli annarra flokka en Sjálfstæðisflokksins í sama hlutfalli og fylgi þeirra var skv. spurningum 1 og 2.