Bráðabirgðaríkisstjórn Mariano Rajoy leiðtoga hægriflokksins PP á Spáni fær væntanlega staðfestingu sem minnihlutastjórn í landinu eftir 10 mánaða stjórnarkreppu.

Samþykkti landsnefnd flokksins í dag að 85 þingmenn sósíalistaflokksins ættu að leyfa Rajoy að mynda stjórn með því að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um myndun stjórnar.

Sósíalistaflokkurinn 137 ára gamall

Hinn 137 ára gamli flokkur taldi ríkisstjórn Rajoy vera illskárri lausn heldur en að blásið yrði til nýrra kosninga, en nýr flokkur Podemos, ógnar stöðu sósíalistaflokksins sem meginstjórnarandstöðuflokksins á vinstri vængnum.

Ef kosið yrði nú myndi Podemos verða stærri en sósíalistaflokkurinn samkvæmt könnunum. PP, flokkur Rajoy var stofnaður af Manual Fraga, sem sat í ríkisstjórn Francisco Franco, fyrrum einræðisherra í landinu sem bannaði sósíalistaflokkinn meðan á fjögurra áratuga stjórn hans stóð í landinu.

Tvær kosningar á sex mánuðum

Sósíalistarnir hafa staðið í vegi fyrir að Rajoy geti tekið við stjórnartaumunum í landinu síðan kosningarnar sem voru í landinu í júnímánuði, í annað sinn á sex mánuðum, skiluðu sundruðu þingi.

Flokkurinn býr við mikla forystukreppu í kjölfar þess að fyrrum leiðtogi hans, Pedro Sanchez, sagði af sér fyrr í mánuðinum. Gerði hann það eftir að honum tókst ekki að njóta stuðnings flokksins til að styðja við fjölflokka ríkisstjórn, sem hefði innihaldið Podemos, sem hefði myndað meirihluta án flokks Rajoy, PP.

Stuðningur við PP og Podemos vex

Rajoy þarf að fá meirihluta í 350 sæta þingi landsins til að fá stjórnartaumana, en til þess að það sé hægt þurfa að minnsta kosti 11 þingmenn sósíalista að sitja hjá. Samkvæmt nýjustu könnun hefur stuðningurinn við PP vaxið í 38%, en þeir fengu 33% í síðustu kosningum.

Sósíalistarnir hafa fallið niður í 18% sem er minna en 22% fylgi Podemos í sömu könnun.