Greiningardeild Arion banka hefur reynt að taka saman kostnað við stjórnarslitin í kjölfar þess afdrifaríkar kvöldstundar aðfaranótt föstudags, sem þeir telja að hljóti að kalla á endurskoðun á frasanum að vika sé stuttur tími í pólitík.

Í tilraun sinni til að reyna að ná utan um áhrif stjórnarslitanna, og þess óstöðguleika sem hefur verið í stjórnmálum landsins vegna tveggja snemmbúinna þingkosninga á tveimur árum, benda þeir á bæði beinan og óbeinan kostnað vegna þeirra.

„Kostnaðurinn við sjálfar þingkosningarnar nemur mánaðarlaunum um 619 ríkisstarfsmanna og ætla má að mikil vinna við ýmis þingmál frestist nú eða fari í súginn með ærnum tilkostnaði,“ segir í fréttatilkynningu um úttektina. „Þá virðist sem stjórnarslitin hafi þurrkað út a.m.k. 35 ma.kr. markaðsvirði á fjármálamörkuðum og muni jafnvel stuðla að hærri vöxtum en ella.“

Einnig benda þeir á að í fjáraukalögum í fyrra hafi verið gert ráð fyrir 121 milljón króna í biðlaun og annars kostnaðar vegna fráfarandi þingmanna, þó ætla megi að sá kostnaður verði lægri nú. En síðan er gert ráð fyrir 47 milljónum í ýmis útgjöld vegna búnaðar fyrir nýja þingmenn og húsnæðismál þeirra.

Minni afköst á þingi

Þó þeir segji það ef til vill jákvætt í hugum sumra að mörg mál frestist eða fari í súginn, enda lágu fyrir þinginu 147 frumvörp og 34 þingsályktunartillögur, þá kosti rekstur Alþingis 3,5 milljónir króna á ári.

Meira um vert er áhrifin á fjármálamarkaðinn, en auk verðmæta sem hafa verið þurkuð út í kauphöllinni, veiktist krónan um 1,3% gagnvart evru á föstudaginn í kjölfar tíðindanna. Jafnframt hækkaði ávöxtunarkrafa óverðtryggðra skuldabréfa og verðbólguálag rauk upp.

Það þýðir að minni líkur eru á stýrivaxtalækkun á næstunni, en þetta hefur einnig haft áhrif til lækkunar á úrvalsvísitölunni sem hafði þá þegar lækkað um 5,7% þegar greiningin var skrifuð.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um í morgun hafa lækkanir haldið áfram á markaði í dag. Eins og áður sagði hafa 32 milljarðar hið minnsta þurkast út af markaðsvirði félaganna, en þar af hafa eignir lífeyrissjóðanna rýrnað um að lágmarki 14 milljarða.Þessu öllu til viðbótar veltir greiningardeildin fyrir sér kostnaði við glataða landsframleiðslu þess starfsfólks sem eyðir meiri tíma í að fylgjast með fréttum en áður.