Höfundarréttarfélög, þar á meðal Félag rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndagerð (FRÍSK) hefur kært stjórnanda skráarskiptasíðunnar Deildu.net, sem Íslendingar halda úti á netinu.

Einnig hefur FRÍSK lagt fram kæru á hendur nokkurra notenda síðunnar sem hlaðið hafa upp íslenskum sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.

Kæra lögreglu fyrir seinagang

Nutu félögin aðstoðar frá utanaðkomandi fyrirtæki sem rannsakaði síðuna. Hefur eitt félaganna, Samband tónskálda og eigenda flutningsréttar (STEF), kært lögregluna fyrir seinagang í rannsókn á síðunni en samkvæmt fréttinni hefur lögreglunni ekki tekist að hafa uppá þeim sem nú er verið að kæra.

Samkvæmt skýrslu Capacent fyrir FRÍSK er tap innlendra höfundarréttarhafa vegna ólöglegs niðurhals talið nema rúmum milljarði króna á ári.