Í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins , í samstarfi við Seðlabanka Íslands, meðal stærstu fyrirtækja landsins á stöðu og horfur í efnahagslífinu kemur fram að níu af hverjum tíu stjórnendum telja aðstæður slæmar en nánast enginn telur þær góðar.

Vísitala efnahagslífsins, sem á að endurspegla mat stjórnenda á það hvort aðstæður séu góðar eða slæmar, fær gildið tvo sem er svipuð niðurstaða og í kjölfar bankahrunsins 2008. 49% stjórnenda telja að aðstæður verði betri, 32% að þær verði verri en 19% að þær verði óbreyttar en vísitalan fær gildið 121 eftir sex mánuði, sem er sambærilegt stöðu vísitölunnar á fyrri helming ársins 2014. 200 er hæsta gildi vísitölunnar.

Enginn skortur á starfsfólki

Skortur á starfsfólki hefur farið hratt minnkandi frá árinu 2017. Áður en kórónukreppan skall á töldu 10% stjórnenda fyrirtækin búa við skort en nú telja 6% svo vera. Þetta er svipuð niðurstaða og fékkst árið 2010 en þá mældist skorturinn 6% á árinu öllu.

25 þúsund starfsmenn starfa hjá fyrirtækjunum í könnuninni. 6% fyrirtækjanna búast við fjölgun starfsmanna en 38% við fækkun á næstu sex mánuðum.

Ætla má að starfsmönnum fyrirtækjanna í heild fækki um 2,0% á næstu sex mánuðum, til viðbótar við þá fækkun sem orðin var við gerð könnunarinnar um mánaðamót maí og júní. Sé niðurstaðan yfirfærð á allan almenna vinnumarkaðinn gæti störfum fækkað um 2.600 á næstu sex mánuðum frá júníbyrjun.

Fækkunin er 3.000 hjá þeim fyrirtækjum sem sjá fram á fækkun starfsfólks en fjölgunin er 400 hjá þeim sem sjá fram á fjölgun. Þessa niðurstöðu ber að skoða í ljósi þess að starfsfólki fyrirtækjanna hafði fækkað mikið skömmu fyrir gerð könnunarinnar.

Verðbólguvæntingar stjórnenda til eins árs eru nú 3,0% eftir að hafa verið við verðbólgumarkmið Seðlabankans undanfarið ár. Þær væntingar endurspegla nokkra lækkun gengis krónunnar á fyrri hluta ársins. Verðbólguvæntingar til tveggja ára eru einnig 3,0% eins og verið hefur undanfarið ár. Eftir 5 ár búast stjórnendur við að verðbólgan verði við markmið Seðlabankans.

Könnunin er gerð ársfjórðungslega og er framkvæmd hennar í höndum Gallup. Að þessu sinni var hún gerð á tímabilinu 12. maí til 8. júní 2020 og voru spurningar 9. Í úrtaki voru 413 fyrirtæki sem teljast stærst á landinu miðað við heildarlaunagreiðslur og svöruðu   205, þannig að svarhlutfall var 50%.