Taílensk yfirvöld hafa gefið grænt ljós á að flugfélagið Thai Airways fari í gegnum fjárhagslega endurskipulagningu. Flugfélagið hefur átt í miklum rekstrarerfiðleikum og fór þess á leit við yfirvöld að þau myndu leggja félaginu til 1,8 milljarða dollara til að koma í veg fyrir gjaldþrot þess. Yfirvöld samþykktu að leggja flugfélaginu til fé, með skilyrði um fyrrnefnda fjárhagslega endurskipulagningu. BBC greinir frá.

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið flugfélög víða um heim grátt, enda hafa farþegaflutningar milli landa nánast stöðvast alfarið.

Þó var farið að bera á fjárhagserfiðleikum innan raða flugfélagsins áður en faraldurinn skall á en til marks um það tapaði félagið um 377 milljónum dollara á síðasta ári. Kórónuveirufaraldurinn hefur því í raun virkað sem olía á eldinn hvað fjárhagsvandræðin varðar.