Stöðugildum meðal opinberra fyrirtækja á samkeppnismarkaði hefur fjölgað mest hjá ÁTVR, um 14% frá árinu 2016 og hafa 44 ný stöðugildi orðið til. Þetta kemur fram í greiningu Viðskiptaráðs á atvinnurekstri hins opinbera.

Til samanburðar hefur stöðugildum hjá opinberum fyrirtækjum í samkeppnisrekstri fækkað um alls 14,7%, sem skýrist að mestu leyti af fækkun stöðugilda hjá viðskiptabönkum, en bankarnir hafa lagt mikla áherslu á aukna hagræðingu í rekstri á undanförnum árum. Ef bankarnir eru undanskildir hefur stöðugildum í samkeppnisrekstri fjölgað um 4,9%, sem er enn talsvert frá því sem fjölgunin nam hjá ÁTVR.

Stöðugildum hins opinbera í atvinnurekstri hefur fjölgað um alls 2,6% en fækkað um 3,5% ef bankarnir eru taldir með. Mest hefur stöðugildum í opinberum atvinnurekstri fjölgað þar sem markaðsbrestur ríkir, alls um 6,4%.

Jafnframt segir í greiningu Viðskiptaráðs að ef horft sé til hins opinbera í heild, einnig stofnana og sveitarfélaga, hafi stöðugildum fjölgað um 14% á tímabilinu 2016-2020. Á sama tíma fækkaði stöðugildum í einkageiranum. Heimsfaraldurinn skýri einungis hluta af þessari þróun.