Boeing hefur beðið 16 flugfélög um að stöðva notkun hluta 737 Max véla tímabundið vegna hugsanlegra vandamála í rafkerfi vélanna. Þetta kemur fram í tilkynningu Boeing sem NY Times fjallar um.

Samkvæmt upplýsingum frá Icelandair eru vélar félagsins ekki á meðal þeirra véla sem vandamálið tekur til.

Samkvæmt tilkynningunni hefur Boeing beðið viðkomandi flugfélög um að ganga úr skugga um að rafkerfi téðra véla virki sem skyldi áður en flugi verður framhaldið. Boeing mun vinna náið með bandarískum flugmálayfirvöldum vegna þess vandamáls sem upp er komið.

Þá kemur fram að unnið að því að upplýsa flugfélögin um skráningarnúmer þeirra véla sem vandamálið snertir og að Boeing muni veita flugfélögunum leiðbeiningar til að leysa vandamálið.

Stærstu notendur Max 737 vélanna, American Airlines, Southwet Airlines og United Airlines hafa að sögn tekið yfir sextíu vélar úr umferð, en ekki er vitað hve lengi.

Stutt er síðan flugfélög hófu að fljúga 737 Max vélunum á ný eftir að þær voru kyrrsettar í kjölfar tveggja mannskæðra flugslysa, hvar hátt í 350 manns týndu lífi.