Hollensku bankinn ABN Amro hefur tekið ákvörðun um að frekari lánveitingar til tóbaksframleiðenda verði stöðvaðar. Bankinn sem er að stórum hluta í eigu hollenska ríkisins greindi frá þessu í gær samhliða því að samstarfssamningur við hollensk samtök hjartasjúklinga var kynntur. Guardian greinir frá.

ABN Amro er fyrsti stóri bankinn í Hollandi til að stöðva lánveitingar til framleiðenda á tóbaki eftir að hafa breytt stefnu sinni gagnvart tóbaki í lok apríl. Bankinn sem veitir yfir sex milljónum viðskiptavina þjónustu um allan heim mun virða núverandi samninga en engir samningar verða endurnýjaðir og ekki verður skrifað undir nýja.

ABN Amro er þriðji stærsti banki Hollands og á ríkið um 70% hlut í bankanum eftir að hafa eignast hann að fullu eftir björgunaraðgerð árið 2008. Aðgerðin kostaði hollenska skattgreiðendur 16,8 milljarða evra. Stjórnvöld í Hollandi greindu frá því í síðustu viku að ríkið hygðist selja 7% hlut í bankanum. Salan er næsta skref stjórnvalda í átt að því að einkavæða bankann að fullu.