Eftirlitsaðilar ESB hafa nú stöðvað samruna London Stock Exchange og Deutsche Boerse. Rök eftirlitsaðilanna eru þau að samruninn myndi skapa einokunarstöðu á ákveðnum vígstöðvum fjármálaheimsins.

London Stock Exchange Group furðar sig á ákvörðuninni, enda hefði samruninn skapað stærsta og öflugasta kauphallarfélag Evrópu. Deutsche Boerse hefði greitt ríflega 21 milljarð punda fyrir félagið.

Félögin hafa í þrígang reynt að sameinast, en viðræður runnu í sandinn árið 2000 og 2004.

Líklegt þykir að úrsögn Breta úr Evrópusambandinu hafi haft áhrif á ákvörðun samkeppnisyfirvalda ESB.

London Stock Exchange og Deutsche Boerse tilkynnt um að ekkert yrði af viðskiptunum stuttu áður en að Theresa May skrifaði undir bréfið sem tjáði ESB um útgönguna.

London Stock Exchange hefur oft fengið athygli frá erlendum kauphöllum og því þykir líklegt að Bandarískar kauphallir gætu sýnt félaginu áhuga.