Fjármálafyrirtækið Gamma stofnaði nýlega þrjá fagfjárfestasjóði sem allir eru starfræktir erlendis og eru samtals 3 milljarðar króna að stærð. Um er að ræða tvo fasteignasjóði sem eru starfræktir í Bandaríkjunum og einn sem sérhæfir sig í  óhefðbundnum lánveitingum sem hefur verið útlagt alternative credit á ensku. Þá stefnir Gamma á að stofna tvo aðra erlenda sjóði á næstunni en annar þeirra mun sérhæfa sig í sjávarútvegi í Bandaríkjunum.

„Fasteignasjóðirnir eru samanlagt um 2 milljarðar,“ segir Gísli Hauksson, framkvæmdastjóri erlendrar starfsemi hjá Gamma. Stefnt er að starfrækja þá í 2-3 ár en búið er að loka þeim fyrir nýskráningar.

„Í öðru tilvikinu er um að ræða eitt stakt verkefni þar sem verið er að breyta húsnæði yfir í íbúðir og það er í New York . Í hinu tilvikinu er um að ræða fasteignasafn íbúða í útleigu í Flórída. Bæði verkefnin eru unnin í samstarfi við öfluga heimamenn og við komum inn sem hlutafjárfestar. Okkar framlag, sem er tveir milljarðar, er kannski um 30-40% af verkefninu,“ útskýrir Gísli en hann segir að áhugi íslenskra fjárfesta á arðbærum verkefnum erlendis sé mikill.

Undanfarið hefur verið talsvert rætt um væntanlegar vaxtahækkanir bæði vestanhafs og í Evrópu en spurður hvort Gamma sé að nýta síðustu forvöð til þess að fara inn í fasteignaverkefni á lágum vöxtum, segir hann vaxtastig ekki hafa ráðið för. „Í þessum tilvikum munu slíkar breytingar ekki hafa úrslitaáhrif. Í öðru tilvikinu er um að ræða fasteignasafn sem er í útleigu á mjög góðum kjörum.

Hitt verkefnið er í raun þróunarverkefni þar sem markaðsverð fasteigna á ekki að hafa mjög mikil áhrif þar sem þetta er mjög stuttur líftími.

Það er hins vegar alveg ljóst að vextir munu eflaust fara hækkandi en það er líka ljóst að á ákveðnum svæðum t.d. í stórborgum og í Flórída að þar er miklu meiri eftirspurn heldur en framboð af húsnæði. Við völdum þessi verkefni af kostgæfni þannig að þau myndu skila ásættanlegri ávöxtun að teknu tilliti til áhættu. Þetta eru verkefni sem maður myndi skilgreina með litla til miðlungs áhættu þegar kemur að fasteignaverkefnum almennt,“ segir Gísli.

Þá segir Gísli að þriðji sjóðurinn sé spennandi verkefni á lánamörkuðum erlendis en sá sjóður mun verða opinn og laus mánaðarlega. „Við teljum þennan sjóð tilvalinn fyrir íslenska fagfjárfesta sem vilja fjárfesta erlendis en ekki missa ávöxtunina. Við erum að reka sambærilegan sjóð á Íslandi sem heitir Credit Opportunity Fund sem er að lána í íslenskum krónum til íslenskra fyrirtækja. Þetta er eiginlega erlenda útgáfan af honum,“ segir hann en sjóðurinn mun hvort tveggja lána beint til fyrirtækja og einstaklinga en einnig  endurfjárfesta í öðrum sjóðum með svipaða sérhæfingu. „Þetta eru bein lán til einstaklinga, námslán, sérhæfð lán, kröfukaup en svo verður einnig fjárfest í öðrum sambærilegum sjóðum,“ segir Gísli en fjárfestar munu hafa val um hvort fjárfest sé í pundum eða evrum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .