Aðkoma skattalektorsins Kristjáns Gunnars Valdimarssonar að Kastljósþættinum um Panamaskjölin svokölluðu, sem sýndur var snemma í apríl, hefur verið skoðuð af Háskóla Íslands upp á síðkastið. Niðurstöðu hefur verið náð í málinu og telur Háskólinn að Kristján Gunnar hafi starfað í samræmi við lög. Kjarninn greinir frá þessu.

Gögn og upplýsingar sem liggja fyrir gefa þá ekki tilefni til að taka mál Kristjáns frekar til athugunar. Staða Kristjáns var ekki tekin til formlegrar athugunar heldur ku skólinn hafa leitað athugasemda hjá Kristjáni áður en ákveðið var að hefja formlega athugun á málinu.

Málið sem um ræðir snýr að því að í þætti Kastljóss, sem unninn var í samstarfi við fjölmiðilinn Reykjavik Media, var birtur tölvupóstur frá Kristjáni Gunnari þar sem hann óskar eftir að fá umboð fyrir aflandsþjónustu lögfræðifyrirtækisins Mossack Fonseca.