Urriðaholt ehf. hagnaðist um 876 milljónir króna árið 2019 sem er mesti hagnaður frá stofnun félagsins árið 2005. Í árslok 2019 nam eigið fé Urriðaholts 2,3 milljörðum króna en ráðgert var að greiða 500 milljónir í arð á árinu 2020. Meirihluti af hagnaði félagsins rennur til góðgerðamála í gegnum Styrktar- og líknarsjóð Oddfellowa sem á 65% hlut í félaginu á móti 35% hlut bræðranna Sigurðar Gísla og Jóns Pálmasona.

Urriðaholt ehf. selur lóðir undir byggð í samnefndu hverfi í Garðabæ en landið komst fyrst í eigu félagsmanna Oddfellowreglunnar árið 1946, eða fyrir 75 árum. Frá stofnun Urriðaholts ehf. árið 2005 til ársloka 2019 hefur félagið hagnast um 2,8 milljarða króna og nemur hlutdeild Styrktar- og líknarsjóðsins í hagnaðinum um 1,8 milljörðum króna.

Sjóðurinn var stofnaður árið 1955 með það að markmiði „að styrkja hvers konar líknar- og mannúðarstarfsemi“ en reglubræður í Oddfellowreglunni gáfu landið við Urriðavatn í kjölfarið til Styrktar- og líknarsjóðsins.

„Þetta er unnið í þeim anda að koma landinu í verðmæti sem skapar höfuðstól fyrir starf okkar í reglunni. Við erum að vinna að fjölda líknar- og góðgerðamála þar sem við látum gott af okkur leiða í samfélaginu,“ segir Guðmundur Eiríksson, stórsír Oddfellowreglunnar.

Alls hlaupa eignir Styrktar- og líknarsjóðsins á nokkrum milljörðum króna en þar af eru tekjur af landinu við Urriðavatn verðmætasta eignin. Guðmundur segir að ef vel gengur megi búast við því að lóðaúthlutunum í Urriðaholti ljúki eftir tvö til þrjú ár. Því eru nokkur verðmæti sem enn á eftir að koma í verð.

Guðmundur bendir á að stærstu verkefni sem Styrktarog líknarsjóðurinn hefur komið að á undanförnum árum hafi verið Líknardeild Landspítalans í Kópavogi, uppbygging á meðferðarheimili Samhjálpar í Hlaðgerðarkoti og endurbætur á húsnæði Ljóssins við Langholtsveg.

„Nýjasta verkefnið sem við erum að vinna að er aðstaða fyrir bæði Alzheimersamtökin og Parkinsonsamtökin í St. Jósepsspítalanum í Hafnarfirði,“ segir Guðmundur.

Þá veitir sjóðurinn sem og regludeildir Oddfellow styrki í ýmis önnur verkefni, bæði stór og smá. Á árunum 2011 til 2019 gaf Oddfellowreglan yfir 1,2 milljarða í góðgerðamál. Þar af mest um 220 milljónir króna á 200 ára afmæli reglunnar árið 2019 en hún var stofnuð í Bandaríkjunum árið 1819.

„Regludeildirnar út um allt land standa sjálfar að því að styðja við fjölda verkefna. Til að mynda tækjakaup fyrir heilbrigðisstofnanir, þær styrkja ýmis félagasamtök og jafnvel einstaklinga sem eiga um sárt að binda,“ segir Guðmundur. Regludeildirnar geti einnig óskað eftir framlagi frá Styrktar- og líknarsjóðnum til góðra verka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .