Um 1.250 danskir og sænskir ferðamenn eru strandaglópar í Evrópu samkvæmt frétt Fréttablaðsins . Aðrir vita ekki hvort þeir komist í frí sem þeir eiga pöntuð með ferðaskrifstofum.

Um það bil 700 Svíar á vegum ferðaskrifstofunnar Solresor eru nú strandaglópar í Suður-Evrópu vegna gjaldþrots og stöðvunar á starfsemi flugfélagsins Primera Air í dag, sem hefur verið einn helsti þjónustuaðili ferðaskrifstofunnar í tæpan áratug.

Flugfélagið þjónustaði einnig dönsku ferðaskrifstofuna Bravo, en um 550 viðskiptavinir hennar, sem eru á ferðalagi og áttu að fljúga með Primera, gætu lent í vandræðum.

Auk þess er sagt frá því á mbl.is að ferðaskrifstofan Apollo hafi fullvissað viðskiptavini sína um að þeir kæmust í fríið og beðið þá að halda ró sinni.