Það má segja að það séu að eiga sér stað straumhvörf í siglingum milli Íslands og Grænlands. Þetta er stórt tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, enda kemur þarna inn nýr markaður fyrir þau til þess að beina sjónum sínum að," segir Björn Einarsson, framkvæmdastjóri sölu og viðskiptastýringar hjá Eimskip, um samstarf Eimskips við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line (RAL) sem hófst formlega á dögunum. Grænlenska landsstjórnin er eigandi RAL og hefur félagið einkaleyfi á flutningum til og frá landinu.

Umrætt samstarf mun opna möguleika á að tengja Grænland inn í alþjóðlegt siglingakerfi Eimskips og byggir samstarfið á aðferðafræði sem þekkt er í alþjóðlegum skipaflutningum og nefnist VSA (Vessel Sharing Agreement). Það felur í sér að félögin samnýta pláss á skipum sínum á siglingaleiðinni. Þetta er þó í fyrsta skipti sem Eimskip gerir slíkan samning. Áður sigldi RAL milli Íslands og Grænlands á þriggja vikna fresti, en með nýju siglingaleiðinni verða ferðirnar milli landanna vikulegar.

„Lega Íslands er mjög mikilvæg gagnvart Grænlandi og þegar öflugir flutningar á milli landanna koma til, þá verða til spennandi tækifæri. Staðsetning Íslands gagnvart Grænlandi er mjög „strategísk" og vikulegar siglingar milli landanna búa til mjög öfluga flutningsmöguleika. Í dag er flutningstími milli Grænlands og Álaborgar í Danmörku níu dagar en á þessari nýju vikulegu siglingu milli Reykjavíkur og Nuuk er flutningstíminn einungis fjórir dagar. Fram til þessa hafði eina tenging Grænlands verið við Álaborg. Þetta undirstrikar tækifærin sem Ísland stendur frammi fyrir í þessum málum.

Grænland er mjög ríkt af náttúruauðlindum og þar eru mjög stór verkefni í farvatninu. Nuuk er á stærð við Akureyri og Grænlendingar reka mjög öflugt flutningsnet út frá Nuuk inn á stærri jafnt sem minni byggðir. Sem slíkur er þetta því stór og myndarlegur markaður. Þar að auki er landið ríkt af auðlindum og það eru fjölmörg tækifæri sem felast í því fyrir íslensk fyrirtæki að taka þátt í þeim verkefnum sem framundan eru í landinu. Sem dæmi má nefna að það er fyrirhugað að byggja þrjá nýja flugvelli á næstu misserum. Þar liggja ýmis tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki sem starfa í byggingariðnaði, bæði þau sem eru að selja hefðbundna byggingarvörur sem og íslenska verktaka," segir Björn og bætir við að einnig séu mikil tækifæri á grænlenska markaðnum fyrir íslensk félög sem selji t.d. ferskar afurðir, eru með alþjóðleg vörumerki á sínum snærum eða sinna þjónustu við sjávarútveg.

Nánar er rætt við Björn í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .