„Ég var ekkert að leita mér að starfi því ég hef verið í eigin rekstri frá 2012. Svo sá ég starfið auglýst og fannst starfslýsingin tala mikið til mín, því það var verið að leita að reynslu af rekstri, markaðsmálum sem og viðburðum sem akkúrat sameinar ástríður mínar," segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, nýr framkvæmdastjóri ÍMARK.

„Hérna sinni ég almennum rekstri og svo eru viðburðir hjá okkur mánaðarlega, en þeir hafa verið þungamiðjan í samfélagi markaðsfólks. Það sem vakti einna mesta áhugann hjá mér við starfið er að ég sé ÍMARK, ekki bara sem samtök markaðsfólks á Íslandi, heldur samfélag þess dag frá degi.

Til þess erum við nú að setja upp grúppu á facebook, þar sem meðlimir geta sótt í gæðastýrða umræðu, þekkingu og samtal við hvert annað, flokkað undir sínum sértæku áhugasviðum og deilt meðmælum um efni sem tengist markaðsmálum. Síðan viljum við gera okkar eigin efni eins og viðtöl við fólk í geiranum."

Þóra Hrund hóf námsferilinn hins vegar á öðru áhugasviði, það er innanhúsarkitektúr, sem hún lærði í Bandaríkjunum. „Skólagjöldin hækkuðu svo í hruninu upp í 3 milljónir á ári og tók ég því ákvörðun um að hætta því ég vildi ekki skuldsetja mig um of, og fer í markaðsfræði á Bifröst.

Það var lán í óláni því markaðsfræðin á ofboðslega vel við mig. Mér finnst gaman að spá í kauphegðun og svo áfram hönnunarhliðinni á upplifun á vöru og þjónustu," segir Þóra Hrund, sem stofnaði félagið City Reykjavík meðan hún var enn í náminu en fór síðar að vinna í viðburðastjórnun hjá Senu.

„Nú er ég ásamt öðrum að reka fyrirtækin Já Takk og Munum, en í því síðarnefnda er ég að hanna og gefa út dagbækur uppfullar af jákvæðri sálfræði sem hvetja til markmiðasetninga og tímastjórnunar, en öll svona mannrækt er ástríða hjá mér. Svo er ég skráður sælkeri í símaskránni enda með mikla ástríðu fyrir matseld og að borða góðan mat með góðu fólki, en Já Takk snýst einmitt um að veita fólki sælkeraupplifanir hér á Íslandi."

Þóra Hrund er í sambúð með Ólafi Páli Einarssyni, framkvæmdastjóra Dokobit á Íslandi, og eiga þau tvö börn, tveggja og sjö ára. „Þegar við ferðumst vil ég kynnast menningarheimunum sem við heimsækjum í gegnum mat og smakka ég yfirleitt allt.

Til dæmis fékk ég naggrís í Perú, sem var bara skorinn á hol og flattur út með tönnunum og öllu á kvikindinu og svo átti maður bara að naga af honum. Síðan hef ég prófað krókódíl, kengúrur og kanínur, en það ógeðslegasta sem ég smakkaði voru stropuð egg á götumarkaði í Víetnam, fjaðrirnar voru á ungunum og allt, en þetta var mikil upplifun."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .