Flestir vilja hafa Katrínu Jakobsdóttur sem forsætisráðherra en stuðningurinn við hana hefur aukist frá því fyrir jól samkvæmt nýrri könnun sem kynnt var í þættinum Kryddsíld á stöð 2 sem nú stendur yfir og hægt er að horfa á Vísi . Í þættinum var jafnframt Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir valinn maður ársins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður VG nýtur stuðning 32% þjóðarinnar samkvæmt könnuninni, en það er aukning frá því fyrir jól þegar stuðningurinn við Katrínu nam 29,6%, og jafnframt töluvert meiri en stuðningurinn við flokk hennar.

Stuðningurinn við Bjarna Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins hefur hins vegar lækkað úr 17,6% í 13,3%. Í þættinum bentu stjórnendur á að áhugavert væri að um fimmtungur stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja Katrínu sem forsætisráðherra.

Niðurstöður könnunar Stöðvar 2 og Maskínu er sem hér segir:

  • Sjálfstæðisflokkurinn - 22,5%, úr 25,2% í kosningunum 2017
  • Samfylkingin - 17,2%, úr 12,1 í kosningunum 2017
  • Vinstri græn - 12,2%, úr 16,9% í kosningunum 2017
  • Viðreisn - 12,2%, úr 6,3% í kosningunum 2017
  • Píratar - 11,2%, úr 9,5% í kosningunum 2017
  • Framsóknarflokkurinn - 8,2%, úr 10,7% í kosningunum 2017
  • Miðflokkurinn - 7,6%, úr 11,1% í kosningunum 2017
  • Flokkur fólksins - 4,5%, úr 6,3% í kosningunum 2017
  • Sósíalistar - 4,4%, buðu ekki fram í kosningunum 2017

Þegar Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar var spurður hvort hann gæti stutt ríkisstjórn með Katrínu heyrðist hvíslað „segðu já, segðu já,“ sem væntanlega hefur verið Katrín sem var nýlega búin að segjast ánægð með sinn stuðning og nýtti tækifærið til að segja þeim sem vilja hana í stólnum áfram að kjósa flokkinn.

Logi sagðist vilja fá græna félagshyggjustjórn og lagði áherslu á að hann væri góður liðsmaður og tilbúinn að taka að sér mismunandi hlutverk í slíkri áhöfn. Bjarni sagði hins vegar í aðdraganda kosninganna og nýrrar stjórnarmyndunar ættu málefnin að vera framar öllu öðru þó hann sagði samstarfið við Katrínu hafa gengið vel.

Bjarni talaði jafnframt um sundrung stjórnmála á Íslandi, 8 flokkar, sem birtist vel í þessum þætti, auk þess að kvarta undan neikvæðri umræðu um sig í fjölmiðlum.

„Hafið þið séð annað en neikvæðar fréttir um þann sem hér stendur,“ sagði Bjarni.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði þvert á móti að engin kjölfesta væri með því að hafa einn flokk og benti á að í borgarstjórn væri eins og margir Sjálfstæðisflokkar væru í gangi innan borgarstjórnarflokks hans.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir segir hins vegar að tal um upplausn í stjórnmálum þýddi að Bjarni væri eins og forstjóri Icelandair sem óttaðist samkeppni.

„Til þess þurfum við ekki eldgamlan kjölfestuflokk,“ sagði Þórhildur. „heldur nokkra flokka sem eru tilbúnir að vinna saman að umbótum.“

Katrín Jakobsdóttir og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknarflokksins sögðu í lok umræðunnar að samstarfið í ríkisstjórninni hafa gengið vel á kjörtímabilinu.