Útboð vegna sameiginlegra farmiðakaupa Stjórnarráðsins verður auglýst um helgina en Fjármálaráðuneytið greindi frá því í fréttatilkynningu fyrr í dag. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir jákvætt að einhver hreyfing sé á málinu en samtökin hafa lengi gagnrýnt fyrirkomulag útboðsins.

„Þetta er gott og blessað,“ segir Ólafur í samtali við Viðskiptablaðið. „Það er náttúrulega jákvætt að það skuli vera einhver hreyfing á málinu eftir þrjú og hálft ár þar sem ríkið hefur vísvitandi viðhaldið ólögmætu ástandi í þessum málum. Okkur finnst hins vegar skrefið vera dálítið stutt, þó að það sé vissulega jákvætt að það sé komið fyrsta skrefið. Það hvílir fortakslaus skylda á ríkinu, samkvæmt úrskurði kærunefndar útboðsmála, að bjóða út öll farmiðaviðskipti allra ríkisstofnana. Þarna ættu í rauninni að vera inni allir sem hafa almennt aðgang að rammasamningum ríkisins. Ég held að það sé óhætt að segja að menn skilji ekki alveg af hverju þetta þarf að vera svona flókið eða svona mikið öðruvísi heldur en önnur útboð á vörum og þjónustu sem ríkið fer í, af því að það eru víða svo flóknir markaðir.“

Tvíþætt útboð

Útboðið sem nú er auglýst er tvíþætt. Annars vegar er boðinn út tiltekinn fjöldi miða til og frá Íslandi á algengustu áfangastaði. Hins vegar er óskað eftir föstum afslætti á alla áfangastaði til og frá Íslandi, þ.e. afslætti á heildarviðskipti, sem nær einnig til tilboðsmiða.

„Ég held að það sé svo sem ekkert óeðlilegt endilega,“ segir Ólafur um fyrirkomulagið. „Það er að sjálfsögðu gott að það sé tekið fram að vildarpunktarnir séu farnir. Það var náttúrulega í hæsta máta óeðlilegt, í fyrsta lagi að ríkisstarfsmenn væru að fá vildarpunkta í krafti flugferða sem voru farnar á kostnað almennings, í öðru lagi var alltaf sú hætta fyrir hendi að menn veldu kannski frekar flugfélagið sem bauð vildarpunktana heldur en endilega það sem væri ódýrast.

Þetta fyrirkomulag að embættismenn eða ráðuneyti séu ekki að bóka sínar ferðir sjálf heldur að það sé verkefni einhvers miðlægs apparats sem á að passa upp á að ná sem mestri hagkvæmni út úr þessu er líka jákvætt. Þetta er jákvætt skref, bara heldur stutt og heldur langt þangað til það á síðan að fara í útboð fyrir allar hinar ríkisstofnanirnar. Það á að gefa þarna einhvern árs reynslutíma og skoða svo málið, þó það komi í raun ekki fram nein tímasetning hvenær eigi síðan að bjóða út fyrir restina. Ríkinu ber skylda til að aflétta þessu ólögmæta ástandi eins fljótt og auðið er.“