Stýrivextir seðlabanka Bandaríkjanna, sem standa nú í 0,25-0,50%, verða hækkaðir í ár, en óvíst er nákvæmlega hvenær þeir verða hækkaðir. Stýrivaxtahækkun verður ekki í júní og ólíklega í júlí. Fjárfestar horfa til síðari mánaða ársins. Þetta kemur fram í frétt Bloomberg.

Janet Yellen, seðlabankastjóri, segir að hún sé sannfærð um að hagkerfi Bandaríkjanna sé nógu sterkt og nægilega mikill vöxtur á því til þess að hægt sé að réttlæta að vextir verði hækkaðir í ár. Þó er hún að sögn óviss um hvenær það verður rétt að tímasetja hækkunina.

Fá störf voru sköpuð í maí, auk þess sem fjárfestingar eru ekki í nógu miklu magni, að mati Yellen. Þá er alþjóðleg áhætta í loftinu og verðbólgumarkmið seðlabankans standast ekki raunverulega þróun verðbólgunnar. Yellen telur að þetta gæti tekið einhverja mánuði að lagfærast.