Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna tilkynnti fyrir skömmu ákvörðun sína um að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig. Greindi nefndin jafnframt frá því að hún hyggist hækka stýrivexti einu sinni aftur á þessu ári.

Seðlabankinn greindi jafnframt frá því að bankinn hyggst minnka 4.500 milljarða dollara eignasafn sitt með sölu á eignum.

Bankinn lækkaði jafnframt verðbólguspá sína fyrir árið 2017 úr 1,9% í 1,6%. Þá var spá um atvinnuleysi lækkuð úr 4,5 í 4,3%.

Í yfirlýsingu sem bankinn gaf út í kjölfar vaxtaákvörðunar sinnar segir að bandaríska hagkerfið hafi vaxið hóflega það sem af er ári. Þar kom einnig fram að bankinn muni fylgjast náið með verðbólguþróun á komandi misserum.