Peningastefnunefnd Seðlabanka Bandaríkjanna hækkaði í gær stýrivexti í landinu um 0,25% prósentustig þegar nefndin tilkynnti einhliða vaxtaákvörðun sína. Samkvæmt frétt Reuters kom ákvörðunin markaðsaðilum lítið á óvart. Er þetta í sjöunda sinn frá árinu 2015 sem nefndin hækkar vexti og hafa þeir ekki verið jafn háir síðan fjármálakreppan skall á árið 2008.

Samkvæmt frétt BBC gerir peningastefnunefndin jafnframt ráð fyrir því að hækka stýrivexti tvisvar til viðbótar á þessu ári. Er þetta breyting frá fyrri yfirlýsingum þar sem gert var ráð fyrir einni hækkun til viðbótar.

Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna sagði á blaðamanna fundi í gær að hagkerfi landsins væri á virkilega góðum stað. „Flestir sem eru að leita að vinnu eru að fá vinnu, atvinnuleysi og verðbólga er lág,“ sagði Powell og bætti því við að horfurnar í Bandarísku efnahagslífi væru áfram hagstæðar.

Þá greindi Powell einnig frá því að frá og með fundinum í gær myndi peningastefnunefndin halda blaðamannafundi eftir hvern fund sinn. Mun þetta fjölga blaðamundum upp í átta ára ári í stað fjögurra áður.