Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig til að bregðast við auknum efnahagslegum áhrifum vegna útbreiðslu COVID-19.

Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,75% og hafa nú verið lækkaðir um eitt prósentustig í mánuðinum en á miðvikudaginn í síðustu viku voru vextir lækkaðir um 0,5 prósentustig. Seðlabankinn hefur því lækkað stýrivexti um 1 prósentustig á einni viku. Í síðustu viku lækkaði hann stýrivexti um 0,5 prósentur og lækkaði bindiskyldu á fjármálafyrirtæki.

Þá hefur fjármálastöðugleikanefnd Seðlabankans ákveðið að aflétta 2% um sveiflujöfnunarauka á fjármálafyrirtæki og verður hann því 0%.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að með vaxtalækkun sé slakað enn frekar á taumhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagshorfur hafi versnað enn meira í kjölfar aukinnar útbreiðslu COVID-19 og þeirra umfangsmiklu aðgerða sem gripið hefur verið til hér á landi og annars staðar í heiminum til að hefta frekari útbreiðslu veirunnar.

Peningastefnunefnd mun áfram fylgjast grannt með framvindu efnahagsmála og nota þau tæki sem nefndin hefur yfir að ráða til að styðja við þjóðarbúskapinn.