Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 0,5% prósent. Munu þeir því fara úr 4,5% niður í 4%. Þetta kemur fram á vef bankans .

Greiningardeildir bankanna spáðu allar að vextir yrðu lækkaðir en það var Arion banki sem reyndist sannspár um prósentubreytinguna.

„Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í maíhefti Peningamála hafa hagvaxtarhorfur breyst verulega frá síðustu spá bankans," segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar.

„Í stað 1,8% hagvaxtar á þessu ári eins og gert var ráð fyrir í febrúar er nú spáð 0,4% samdrætti. Þessi umskipti stafa einkum af samdrætti í ferðaþjónustu og minni útflutningi sjávarafurða vegna loðnubrests. Af þessum sökum mun framleiðsluspenna snúast í slaka á næstunni."