Seðlabanki Bandaríkjanna áætlar að halda stýrivöxtum nálægt núlli út árið 2022 í það minnsta. Í tilkynningu bankans í gær kom fram að hann vonist til að atvinnuleysi nái því stigi sem það var fyrir heimsfaraldurinn.

Seðlabankinn gerir ráð fyrir að samdráttur bandaríska hagkerfisins verði um 6,5% í ár og að atvinnuleysi í ár verði að meðaltali 9,3%. Þetta eru fyrstu hagvaxtarspár bankans frá því í desember síðastliðnum. Hann spáir einnig 5% hagvexti og 6,5% atvinnuleysi á næsta ári.

Í tilkynningunni segir að bankinn sé „staðráðinn í að nota öll sín tól til að styðja við bandaríska hagkerfið á þessum krefjandi tímum“ og að hann muni halda stýrivöxtum nálægt núlli þar til hann væri „viss um að hagkerfið hafi komist í gegnum ástandið“.

„Við erum ekki hugsa um að hækka vexti. Við erum ekki einu sinni að hugsa um að hugsa um að hækka vexti,“ sagði Jerome Powell, Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, á blaðamannafundi í gær.

Nærri 93 billjóna króna innspýting

Bandaríski Seðlabankinn lækkaði stýrivexti í 0-0,25% í mars síðastliðnum og hóf um 700 milljarða dollara innspýtingu, eða sem samsvarar 92,6 þúsund milljörðum íslenskra króna, með svokallaðri magnbundinni íhlutun (e. quantitative easing) sem felur í sér kaup bankans á skuldabréfum á markaði. Bankinn kaupir bandarísk ríkisskuldabréf fyrir rúmlega 20 milljarða dollara á viku, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

„Við erum ekki að reyna að ná einhverju tilteknu eignaverði á mörkuðum. Það sem við viljum er að fjárfestar verðleggi áhættu líkt og markaðir eiga að gera,“ sagði Powell í gær.

S&P 500 vísitalan lækkaði um 0,5% í gær eftir tilkynningu Seðlabankans. Verð ríkisskuldabréfa (e. Treasuries) hækkuðu einnig en ávöxtunarkrafa þeirra hafði nýverið náð sínu hæsta gildi síðan í mars.