Frumvarpi þriggja þingmanna Framsóknarflokksins um breytingar á áfengislöggjöfinni er ekki beint til höfuðs afar áþekku frumvarpi dómsmálaráðherra um sama efni. Þvert á móti vonast þingmennirnir til þess að það verði til þess að gefa umræðunni aukna dýpt og styðja við efni hins. Þetta segir Þórarinn Ingi Pétursson, varaþingmaður Framsóknarflokksins í norðausturkjördæmi og fyrsti flutningsmaður málsins.

Frumvarp dómsmálaráðherra um sölu áfengis „beint frá býli“ hefur verið til umræðu í stjórnarflokkunum undanfarið og staðið í einhverjum þingmönnum meirihlutans. Það vakti því nokkra furðu að sjá umrætt þingmannamál lagt nánast á sama tíma og frumvarp ráðherra var afgreitt frá þingflokki Framsóknar.

„Þegar þingmál eru lögð fram þá rata þau oft í umræðuna og að mínu mati getur það orðið til þess að aðstoða frumvarp ráðherrans með því að stækka og dýpka umræðuna. Það tel ég af hinu góða fyrir mál ráðherra. Það fer því fjarri að verið sé að bregða fæti fyrir það mál,“ segir Þórarinn Ingi og bendir á þá staðreynd að þingmannamál sem fáist samþykkt séu nánast teljandi á fingrum annarar handar.

Spurður að því hvort ekki hefði verið nær lagi, í ljósi þess að hér séu þingmenn stjórnarinnar á ferð, að senda ábendingar um slíkt aftur til ráðherra segir Þórarinn að það hafi verið möguleiki. „En við teljum að betra sé að stækka umræðuna á þennan hátt í stað þess að senda málið aftur inn í ráðuneyti og láta það drukkna þar. Við skulum alveg hafa það á hreinu að það er töluvert nýmæli að Framsóknarmenn séu yfirhöfuð að fjalla um áfengislöggjöfina og bætur á henni.“

Áþekk en þó munur

Frumvörpin tvö eru áþekkt að ýmsu leyti. Þó er sá munur á þeim að í þingmannamálinu eru mörkin tvöfalt hærri, það er milljón lítrar á ári í stað 500 þúsund lítra, um hvaða framleiðendur geta fengið leyfi til að selja beint af framleiðslustað. Með því fellur til að mynda Bruggsmiðjan Kaldi undir frumvarp Framsóknar en lendir utan girðingar hjá dómsmálaráðherra. Þá leggja þingmennirnir til að framleiðendur léttra og sterka vína geti einnig selt „beint frá býli“ en ekki aðeins framleiðendur öls.

Þá kveður frumvarp Framsóknar á um allt að helmingsafslátt af áfengisgjaldi til smærri brugghúsa. Sá afsláttur fer minnkandi eftir því sem áfengismagn hækkar. Áþekkt frumvarp var lagt fram af þingmönnum úr röðum stjórnarandstöðunnar síðasta vor en ekki var mælt fyrir því sökum ferðalags kórónaveirunnar.

„Tilgangurinn með þessu er að styrkja innlenda framleiðslu. Þetta er heillavænlegt skref fyrir minni áfengisframleiðendur sem rennir styrkari stoðun undir rekstur þeirra. Á fyrstu stigum er bruggun nánast algert frumkvöðlastarf og með afslætti af áfengisgjaldi verður auðveldara að koma fótum undir sig,“ segir Þórarinn.

„Allt er gott í hófi“

Það hefur þó vakið athygli að í frumvarpi þrímenninganna er sett þak á það hve mikið magn má kaupa í einu. Það er kippa af allt að 6% bjór, þrjú stykki af 6-13% bjór, flaska af léttvíni eða þrjár af sterku. Það skilyrði er ekki útfært nánar og því ekki ljóst hvort menn geti mætt með tíu mínútna millibili og keypt sama magn aftur. Þá er frumvarpið þögult um fyrirkomulag eftirlits með sölunni.

„Það er nú yfirleitt þannig að þegar lög eru sett þá er ráðherra fengið vald til að útfæra hluti sem þessa í reglugerð. Þetta var sett inn til að sætta sjónarmið innan flokksins til að mynda varðandi lýðheilsu. En ég geri mér grein fyrir því að það kann að verða snúið að framfylgja þessu,“ segir Þórarinn.

Þakið hafi fyrst og fremst verið sett inn til að reyna að „tempra magnið“, draga einhverja línu í sandinn og koma í veg fyrir að menn mæti á flutningabílum og hamstri. „Flestir þessir staðir hafa leyfi til að selja áfengi inni á staðnum en við teljum að með þessu móti geti ferðamenn til dæmis keypt, tekið með sér og notið upp á hótelherbergi,“ segir Þórarinn og bætir við að „allt sé gott í hófi“.

Umræddar breytingar á áfengislöggjöfinni eru ekki þær einu sem fyrirhugaðar eru en einnig hefur verið lagt til af ráðherra að leyfa sölu áfengis gegnum netverslanir. Það mál hefur hingað til ekki fengist afgreitt úr ríkisstjórn.