Hagnaður Össurar var 13 millj- ónir dollara á síðasta ársfjórð- ungi og 51 milljón dollara á öllu síðasta ári. Til samanburðar var hagnaðurinn 59 milljónir dollara árið 2014. Styrking dollarans hefur haft talsverð neikvæð áhrif á rekstrarkennitölur Össurar, en hún þýðir að á sama tíma og ágætur vöxtur er í sölu fyrirtækisins minnka tekjurnar í dollurum talið. Það hefur einnig áhrif á hagnaðartölurnar.

Afar óhagstæð gengisáhrif

Stjórnendur Össurar búast við því að sala fyrirtækisins muni vaxa um 3-5 prósent á þessu ári og að EBITDA-hlutfallið verði 20-21 prósent. Í tilkynningu sagði Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, að fyrirtækið hefði lokað árinu með sterkri rekstrarniðurstöðu og góðum hagnaði þrátt fyrir afar óhagstæð gengisáhrif.

Jafnvægi í rekstrinum

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Stefán Broddi Guðjónsson, sérfræðingur hjá Arion banka, að uppgjör Össurar hafi verið í samræmi við væntingar. Það bendi til þess að reksturinn einkennist af jafnvægi. „Félagið er mjög skuldlétt og gefur til kynna að það muni halda áfram að koma fjármagni til hluthafa með kaupum á eigin bréfum og arðgreiðslum. Svo birti félagið áætlun fyrir nýtt ár sem ætti að vera í línu við hóflegan vöxt og sambærilega arðsemi og verið hefur,“ segir hann.

Stefán bendir þó á að styrking íslensku krónunnar komi illa fyrir Össur, en um 10% af kostnaði félagsins eru í krónum og félagið er illa varið fyrir gengisstyrkingunni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.