Flestir styrkir úr styrktarsjóði Sonju de Zorrilla hafa runnið til Bandaríkjanna, rúmlega 80%, en afgangurinn að mestu til samtaka og stofnana á Íslandi. Í Bandaríkjunum hafa styrkir runnið til fjölda háskóla, spítala, góðgerðasamtaka og heilbrigðismála. Auk þess er áberandi að mörg samtakanna eru kaþólsk en John Ferguson og Guðmundur A. Birgisson eru báðir með tengsl við  kaþólsku kirkjuna og Sonja de Zorrilla gekk sjálf í Landakotsskóla.

Sjá einnig: Sjóður Sonju de Zorrilla fundinn

John Ferguson hefur unnið sjálfboðaliðastarf fyrir nokkur samtök sem fengið hafa styrki úr styrktarsjóð Sonju. Hæsti einstaki styrkurinn er til Holy Cross University, sem fengið hefur ríflega 300 þúsund dollara úr sjóðnum, en John Ferguson stundaði nám við þann skóla. Þá hefur meðal annars verið stofnaður skólastyrkurinn the Sonja Foundation Scholarship við St. Thomas Aquinas College sem styrkt hefur nemendur fyrir um 10 milljónir króna að minnsta kosti. Ferguson segir styrkina til háskólanna hafa runnið til að styrkja efnaminni nemendur.

Hvítasunnusöfnuður í Noregi fékk styrk

Í heildina hafa að minnsta kosti  670 þúsund dollarar runnið í styrki til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem tengjast Íslandi. Þeir styrkþegar sem hlotið hafa hæstu styrkina úr sjóðnum hérlendis eru Háskóli Íslands, sem hefur í heildina fengið 116 þúsund dollara, og Landakotsskóli, sem fékk samanlagt 105 þúsund dollara í fimm úthlutunum á árunum 2006-2010.

Á meðal annarra styrkþega úr sjóðnum á Íslandi eru Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, Hjálparstarf kirkjunnar, sérkennsludeild Fjölbrautaskóla Suðurlands, vinir Grensásdeildar og íþróttafélagið Hamar í Hveragerði. Þá hefur sjóðurinn einnig styrkt hjálparstarf í Kenía í gegnum Hvítasunnusöfnuðinn í Oyer í Noregi svo eitthvað sé nefnt.

Dæturnar fengið styrki til náms

Dætur Guðmundar A. Birgissonar, sjóðstjóra, fengu styrki til náms í Bandaríkjunum og Noregi. Þá veit Viðskiptablaðið nokkur dæmi þess til viðbótar að aðrir Íslendingar hafi einnig fengið styrki til náms erlendis en á meðal þeirra er píanóleikarinn Margaryta Popova sem fékk styrk til tónlistarnáms í New York.

Sjá einnig: „Aðalverðmætin“ komu frá ástmanni Sonju

Á meðal styrkþega er Styrkur Org sem fékk 25 þúsund dollarar en Edda Sonja Guðmundsdóttir, frænka Sonju og dóttir Guðmundar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að til stæði að nýta styrkinn til að halda minningu frænku sinnar á lofti. „Ég vil að umheimurinn fái tækifæri til að kynnast henni betur í mynd, texta og hljóði, segir Edda Sonja. Þá fékk listamaðurinn Einar Hákonarson 10 þúsund dollara í styrk til gerðar heimildarmyndar um sjálfan sig sem stefnt er á að sýna í grunnskólum.

Ársreikninga Sonja Foundation fyrir árin 2003 til 2019 má finna hér.

Ítarlega er fjallað um mál Sonju Foundation í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .