Starfshópur hefur skilað drögum að frumvarpi til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna til menntamálaráðherra. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hyggst menntamálaráðherra leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um LÍN á næstu dögum. Þar má búast við að lagðar verði til umfangsmiklar breytingar á styrkjafyrirkomulagi sjóðsins.

Jónas Fr. Jónsson, stjórnarformaður LÍN, sat í starfshópnum. Aðspurður segir hann eina af ástæðunum fyrir því að ráðist var í undirbúning nýrra laga um sjóðinn sé að miðað við óbreyttar forsendur séu líkur á að útgjöld ríkisins vegna LÍN myndu aukast á komandi árum. „Við höfum náttúrulega verið að benda á það og segja að að öðru óbreyttu muni kostnaður ríkissjóðs vaxa. Þess vegna var ráðist í endurskoðun á lögunum,“ segir Jónas og bætir við að fyrir utan það séu lögin orðin 20 ára gömul.

Jónas bendir á að styrkveitingum ríkisins til námsmanna sé misskipt. „Það sem er í þessu kerfi líka er að ríkisstyrkurinn, sem er áætlaður um 47% að meðaltali, kemur fyrst og fremst til á endurgreiðslutímanum og dreifist ekki sérstaklega fyrirsjáanlega. Þeir eru í raun að fá mestan styrk sem taka hæstu lánin og eru lengst að greiða,“ segir Jónas.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .