Ástæða þess að Jose Mourinho hefur enn ekki verið kynntur sem nýr knattspyrnustjóri enska stórliðsins Manchester United er sú að hagsmunarárekstrar eru til staðar vegna styrktaraðila Portúgalans annars vegar og félagsins hins vegar. Breska blaðið Telegraph greinir frá, en Mourinho er væntanlegur arftaki Louis van Gaal sem rekinn var úr starfi fyrr í vikunni.

Mourinho er líklega þekktasti knattspyrnustjóri veraldar og hefur gert fjöldan allan af auglýsingasamningum. Vandamálið er að mörg þeirra fyrirtækja sem Mourinho auglýsir eru í beinni samkeppni við marga af stærstu samstarfsaðilum Manchester United. Hafa lögfræðingar beggja aðila unnið að því að finna lausn á þessu vandamáli og þá sérstaklega samstarfi knattspyrnustjórans við bílaframleiðandann Jaguar, en einnig úraframleiðendur og spilavíti.

Manchester United er með sjö ára samning við bílaframleiðandann Chevrolet, sem er í eigu General Motors, en samningurinn er 357 milljóna punda virði. Samningur Mourinho við samkeppnisaðilann Jaguar veldur því vandræðum, sem og samstarf Portúgalans við úraframleiðandann Hublot. Síðarnefnda fyrirtækið var lengi vel styrktaraðili United áður en félagið samdi við bandaríska úraframleiðandann Bolova.

Einnig er United í samstarfi með Donaco International, hótel- og spilavítakeðju sem starfar í Suður Kóreu og fleiri Asíulöndum. Mourinho er með samning við Paradise Co, sem rekur einnig spilavíti í Suður Kóreu.

Að sögn Telegraph er engin ástæða til að halda að þessir hagsmunaárekstrar komi í veg fyrir samkomulag og er talið að United tilkynni ráðningu Mourinho á fimmtudag eða föstudag. Félagið gæti þó þurft að bæta Mourinho upp tekjutap sitt ef hann þarf að rifta samningum við styrktaraðila sína.