Samtök íslenskra kvikmyndaframleiðenda (SÍK), telja að með ákvörðun um vilyrði fyrir rúthlutun á 60 milljóna króna styrk frá Kvikmyndasjóði hafi reglur verið brotnar. Segja þeir að þó heimild sé til að veita vilyrði um sturk, er það skilyrt þannig að fullbúið handrit þurfi að liggja fyrir.

Í reglugerð um Kvikmyndasjóð séu ekki að finna undantekningar frá því skilyrði, en um er að ræða vilyrði til framleiðslu á framhaldi af þáttaröðinni vinsælu Ófærð, að því er Fréttablaðið hefur greint frá. „Vilyrði fyrir styrk var því veitt í andstöðu við skýrt og afdráttarlaust ákvæði reglugerðarinnar,“ segir jafnframt í fréttatilkynningunni frá samtökunum.

„SÍK hefur sent formlegt erindi til forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands, KMÍ, með afriti á mennta- og menningarmálaráðherra þar sem gerðar eru athugasemdir við framkvæmd á úthlutun styrkja úr Kvikmyndasjóði. Í erindinu er kallað eftir endurskoðun á verklagi við úthlutun styrkja.

Það er ósk samtakanna að íslenskur kvikmyndaiðnaður blómstri á komandi árum enda ljóst að eftirspurn eftir íslensku sjónvarpsefni er mikil. Kvikmyndasjóður og KMÍ spila þar lykilhlutverk og að mati SÍK er gott samstarf milli kvikmyndaiðnaðarins og stjórnvalda forsenda þess að tryggja farsæld greinarinnar og aukin verðmæti.“