Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka, nú Kviku, hyggst freista þess að fá dóm Hæstaréttar yfir sér frá 2013 ógildan, eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi málsmeðferðina ólöglega .

Styrmir var dæmdur í eins árs fangelsi í Hæstarétti í október 2013 í hinu svokallaða Exeter-máli, eftir að hafa verið sýknaður tvisvar í Héraðsdómi.

Styrmir kærði íslenska ríkið til Mannréttindadómstólsins fyrir að brjóta reglu um milliliðalausa sönnunarfærslu með því að endurmeta sönnunargildi munnlegs framburðar án þess að vitni málsins gæfu skýrslu fyrir Hæstarétti.

Í Facebook-færslu um málið segir Styrmir að með dómi Mannréttindadómstólsins hafi hann „öðlast öll þau vopn sem ég þarf til að fá réttlætinu fullnægt og fá þennan ólöglega dóm ógildan“. Hann muni „að sjálfsögðu leita allra leiða til að fá réttlætinu fullnægt.“