Tryggvi Björn Davíðsson og Haukur Skúlason stofnuðu Indó haustið 2018, en báðir hafa þeir áralanga reynslu af fjármálamarkaði. Indó er nýbanki sem ætlar að bjóða innlánaþjónustu í gegnum app. Viðskiptalíkan félagsins er það fyrsta sinnar tegundar í heiminum en það byggir á því að innlán viðskiptavina séu geymd á reikningi hjá Seðlabanka Íslands. Viðskiptavinurinn viti þannig alltaf hvar peningurinn er geymdur.

„Við viljum veita eins ódýra og gagnsæja þjónustu og hægt er, og komumst að því að besta leiðin til þess væri að geyma innlán hjá Seðlabankanum," segir Tryggvi.

Með þessu viðskiptalíkani stefnir Indó að því að veita hefðbundna þjónustu með mun lægri kostnaði en hefðbundnir banka. „Viðskiptalíkanið grundvallast á mjög lágum föstum kostnaði, öfugt við hefðbundna banka þar sem fastur kostnaður er mjög hár. Með því að lágmarka fastan kostnað munum við geta boðið viðskiptavinum okkar betri kjör."

Hugmyndin að Indó kviknaði hjá Hauki en Tryggvi var skeptískur til að byrja með. „Við Haukur hittumst fyrir tilviljun á kaffihúsi í Borgartúni, þar sem hann segir mér að hann langi til þess að stofna banka. Ég sagði honum að gleyma því þar sem það væri einfaldlega ómögulegt. Regluverkið væri of flókið, það þurfi rosalega mikið fjármagn og breiðan hóp af mjög hæfu fólki; tæknifólki, bankafólki, lögfræðingum og svo mætti lengi telja. Tveimur mánuðum síðar var Haukur þó búinn að selja mér þá hugmynd að þetta væri hægt með því að gerir þetta allt öðruvísi en nokkur annar hefur gert í heiminum."

Indó hefur þegar fengið úthlutað bankanúmer 2200 og segir Tryggvi að unnið sé hörðum höndum að undirbúningi þess að bankinn hefji starfsemi.

Nánar er fjallað um málið í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .