Suðurhús ehf. og Sjöstjarnan ehf., félög Skúla Gunnars Sigfússonar, var með Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir helgi gert að greiða Þarfaþingi hf. tæplega 37 milljón krónur, að frádregnum tæplega sex milljónum sem greiddar höfðu verið inn á kröfuna, auk dráttarvaxta. Dómur í málinu var fjölskipaður en hann mönnuðu tveir embættisdómarar auk verkfræðings.

Deila málsaðila laut að uppgjöri vegna uppsteypu og frágangi á hóteli við Hafnarstræti 17-19 hér í borg. Verkið átti að hefjast í byrjun febrúar 2016 og ljúka í byrjun september 2016. Heildarvirði samningsins sem Suðurhús gerðu við Þarfaþing var tæplega 449 milljónir. Sjöstjarnan blandast síðan inn í málið þar sem þar er á ferð móðurfélag Suðurhúsa sem tekið hafði á sig sjálfskuldarábyrgð vegna hluta verksins.

Glöggir lesendur hafa mögulega getið sér til um að verkáætlun stóðst ekki, hitt og þetta kom upp á sem varð til þess að tefja verkið, enda hefði tæplega komið til dómsmáls ef allt hefði gengið eins og í sögu. Fór það svo að verkinu var ekki lokið fyrr en í apríl 2017 og fór lokaúttekt fram þá um sumarið en úttekaraðilar höfðu ýmsar athugasemdir við frágang verksins.

Meðal þess sem tafði framgang þess var handvömm undirverktaka sem fólst í því að reyna að færa of þungt hlass með byggingakrana. Í þeim slag hafði eðlisfræðin betur með þeim afleiðingum að kraninn gaf sig og laskaði það sem byggja átti. Þá var álitamál uppi hvort ýmsar tafir og vankanta hefði mátt rekja til lélegra teikninga eða klúðurs hjá verktaka.

Þegar upp var staðið taldi verktakinn sig eiga inni 63 milljónir króna vegna ýmissa aukaverka og vesens sem af framkvæmdinni hlaust. Suðurhús töldu aftur á móti að félagið gæti haft uppi kröfu til skuldajafnaðar vegna kostnaðar sem fallið hefði á félagið auk tafabóta sem leiddi af því hve hægt verkið vannst.

Undir rekstri málsins var dómkvaddur matsmaður að beiðni beggja aðila. Þarfaþing vildi að hann myndi leggja mat á hæfilegt umfang vinnu við viðbótar- og aukaverk en Suðurhús vildu að metnir yrðu gallar á verki, tjón vegna skemmda sem hlutust af hruni kranans, kostnað sem féll á Suðurhús og að endingu tafabætur.

Kröfugerðir aðila sem og röksemdafærsla dómsins lýsa öllu heila klabbinu í smáatriðum og í raun er það þannig að dómurinn er tæplega skemmtilesning nema lesandinn sé verkfræðimenntaður. Til að gera langa sögu stutta þá féllst dómurinn á 36,6 milljónir af kröfu 63 milljóna kröfu Þarfaþings. Málskostnaður var felldur niður milli aðila.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem upp er kveðinn dómur í máli sem varðar Suðurhús. Fyrr í ár var félagið til sóknar gegn Icelandair Hotels þar sem deilt var um það hvort síðarnefnda félaginu bæri að greiða leigu fyrir Hafnarstræti 17-19 meðan faraldurinn hélt samfélaginu í heljargreipum. Var það niðurstaða héraðsdóms að svo væri.