Óttast er að mikil röskun verði alþjóðaviðskiptum á næstunni vegna strandaða flutningaskipinu Ever Given sem þverar Súez skurðinn. Forstjóri Boskalis, þjónustufyrirtæki á sviði sjóflutninga sem aðstoðar við að losa skipið, segir að aðgerðin gæti tekið „daga eða vikur“, að því er kemur fram í frétt Financial Times .

„Að koma öllum búnaði sem við þurfum, það er ekki hinum megin við hornið,“ sagði Peter Berdowski, forstjóri hollenska fyrirtækisins Boskalis, í viðtali í hollenska sjónvarpsþættinum Nieuwsuur.

Sérhæfð dýpkunarskip mættu á svæðið í gær til að koma Ever Given aftur á flot eftir að 220 þúsund tonna flutningaskipið strandaði í skurðinum í miðjum sandstormi á þriðjudaginn. Sérfræðingar vonast til að háflóð muni gera björgunaraðgerðir auðveldari en óttast er að aðgerðirnar geti reynst talsvert flóknar. Björgunarfyrirtæki gætu þurft að fjarlægja olíu úr skipinu til að létta á því ásamt því að losa það við gáma, sem gæti orðið illfært miðað við staðsetningu og hæð skipsins.

Alls eru vörur að andvirði 9,6 milljarða dala, eða um 1.226 milljarða íslenskra króna, sem komast ekki leiða sinna á hverjum degi vegna atviksins, samkvæmt mati Lloyd‘s List. Þar af eru vörur að andvirði 5,1 milljarða dala sem eru á vesturleið og 4,5 milljarða dala vöruflutningar á austurleið, að því er BBC greinir frá.

Skipafélög frá nokkrum löndum hafa haft samband við bandaríska sjóherinn vegna aukinnar hættu á sjóráni á skipum sem neyddust til að skipta um flutningaleið. Fyrirtækin standa frammi fyrir vali að annað hvort kyrrsetja skipin á meðan Ever Given er losað úr Súez skurðinum eða senda skipin lengri og varasamari leiðir í kringum Afríku.

© epa (epa)