Þráinn Lárusson, veitingastaða- og hóteleigandi á Austurlandi, segir að þetta sumar sé undarlegasti tími sem hann hafi upplifað. „Ég hef starfað í veitinga- og hótelbransanum í hátt í rúmlega 40 ár en þessi tími er sá undarlegasti sem ég hef upplifað. Auðvitað setti COVID-19 faraldurinn strik í reikninginn hjá okkur öllum sem störfum í ferðaþjónustunni og við vissum að þetta sumar yrði frábrugðið öðrum en við gerðum okkur enga grein fyrir því sem varð,“ segir Þráinn og bætir við að sumartraffíkin til Austurlands ráðist oft á tíðum af veðrinu.

„Þrátt fyrir COVID þá reiknuðum við með einhverri sumartraffík því eins og oft vill verða þá er á sumrin mjög gott veður fyrir austan en kannski ekki alveg nógu gott fyrir sunnan. Við höfum fengið í ár gríðarlega marga Íslendinga til okkar út af góða veðrinu en ef við tökum til dæmis síðasta sumar þá komu sárafáir því veðrið var svo gott fyrir sunnan.“ Þráinn segir jafnframt að þar sem hann hafi gert ráð fyrir samdrætti hafi hann ráðið færra fólk inn á hótelin og veitingastaðina heldur en hafi þurft þegar upp var staðið. „Gistihlutinn hjá okkur fór rólega af stað en síðan sprakk þetta út. Við erum mjög undirmönnuð en það á ekki bara við um okkur heldur bara flesta í þessum geira.“

Íslendingar kjósi dýrari vín

Þráinn segir að veitingastaðirnir hafi þurft að uppfæra vínseðlana sína með fínni og dýrari vínum í kjölfar þess að Íslendingar hafi farið að mæta á veitingastaðina í meiri mæli. „Við höfum fundið fyrir því að Íslendingarnir kjósa fínni og dýrari vín. Við þurftum því að breyta vínseðlinum því hann miðaðist við erlenda ferðamenn en þeir eru alla jafna 95% af okkar gestum.“ Aðspurður hvort Íslendingar eyði meiri peningi í veitingar heldur en útlendingar en vilji greiða minna fyrir gistingu segir Þráinn að það geti vel verið.

„Það má segja að það sé meiri sala per haus á veitingastöðunum og þeir gera meiri kröfur að einhverju leyti. Hins vegar má líka segja það að Íslendingar eru ekki auðveldustu kúnnar í heimi. Upp til hópa er þetta yndislegt fólk en inn á milli þá er fólk sem er með mikla frekju og kemur fyrir að það grætir starfsfólkið. Það einfaldlega vantar alla tillitssemi í það fólk en ég tek það fram að við finnum fyrir jákvæðum straumum hjá mörgum, til dæmis frá fólki sem hefur ekki ferðast út á land í mörg ár og finnst þetta æðislegt.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .