Samband ungra sjálfstæðismanna veitir á hverju ári frelsisverðlaun kennd við Kjartan Gunnarsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, til að heiðra starf hans við að auka frelsi á Íslandi og bera út hugmyndir frjálshyggjunnar.

Eru þau afhent einum einstaklingi og einum lögaðila, sem að mati stjórnar SUS hafa aukið veg frelsishugsjónarinnar á Íslandi.

Einstaklingurinn sem hlýtur verðlaunin er Sigríður Andersen

Að þessu sinni hlýtur Sigríður Andersen lögmaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins verðlaunin fyrir áralanga baráttu sína fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og viðskipta.

„Hún hefur skrifað fjölda pistla og blaðagreina sem hafa haft góð áhrif á opinbera umræðu og hvatt til minni ríkisafskipta. Hún tók sæti sem þingmaður á Alþingi 2015 og hefur síðan hvergi hvikað í baráttu sinni fyrir meira frelsi á öllum sviðum samfélagsins. Hún er öflugur málsvari frelsisins, óháð því hvort málstaðurinn telst vinsæll eða óvinsæll,“ segir í fréttatilkynningu um verðlaunin.

Lögaðilinn sem hlýtur verðlaunin er Almenna bókafélagið

Einnig hlýtur Almenna bókafélagið verðlaunin fyrir útgáfu bóka og rita sem gegna því hlutverki að upplýsa og fræða fólk um hugmyndafræði frelsisins.

„ Áhersla bókafélagsins hefur frá fyrstu tíð verið sú að gefa út vandaðar bækur á góðu máli. Hefur félagið í því skyni látið þýða fjölda bóka og rita yfir á íslensku sem auðvelda lesendum að afla sér þekkingar á sviði frelsis og samfélagsmála. Þá hefur félagið einnig staðið fyrir útgáfu bóka um ýmis álitaefni samtímans, svo
sem Icesave-málið og Búsáhaldabyltinguna,“ segir þar jafnframt um Almenna bókafélagið.

Verðlaunin verða afhend í dag, fimmtudag 21.júlí klukkan 17:00 í Valhöll.

Fyrri verðlaunahafar eru:

  • 2007: Andri Snær Magnason og Andríki
  • 2008: Margrét Pála Ólafsdóttir og Viðskiptaráð Íslands
  • 2009: Davíð Scheving Thorsteinsson og Hugmyndaráðuneytið
  • 2010: Brynjar Nielsson og InDefence
  • 2011: Ragnar Árnason og Advice
  • 2012: Hannes Hólmsteinn Gissurarson og AMX
  • 2013: Gunnlaugur Jónsson og Samtökin '78
  • 2014: Pawel Bartoszek og Rannsóknarsetur um Nýsköpun og Hagvöxt, RNH
  • 2015: Vilhjálmur Árnason og Viðskiptaráð Íslands