Kvikmyndin Svanurinn, í leikstjórn Ásu Helgu Hjörleifsdóttur, hefur verið seld til dreifingar í Norður-Ameríku, Kína og Litháen. Þýska sölufyrirtækið m-Appeal sér um að selja myndina.

Synergetic Distribution keypti réttinn til að dreifa myndinni í Norður-Ameriku og hyggst dreifa myndinni í kvikmyndahús þarlendis og eru aðstandendur myndarinnar afar ánægðir. Hugoeast dreifir myndinni í Kína, og í Litháen sér European Film Forum Scanorama um dreifingu.

Svanurinn var frumsýnd í Toronto í september sem leið og hefur síðan verið á ferðinni milli kvikmyndahátíða. Til stendur að frumsýna myndina á Íslandi í byrjun janúar. Í aðalhlutverkum eru Gríma Valsdóttir, Þorvaldur Davíð Kristjánsson og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.

Ása Helga skrifaði einnig handrit myndarinnar en það byggir á samnefndri bók Guðbergs Bergssonar sem út kom 1991 og hefur verið þýdd á fjölda tungumála, nú síðast í fyrra var hún gefin út í Taiwan.