Þegar ég kem að Toyota með hugmyndina um breytingadeild þá var svarið bara klárt nei,“ segir Emil Grímsson, stofnandi og stjórnandi Arctic Trucks. Fyrirtækið varð til innan P. Samúelsson, Toyota á Íslandi, í upphafi tíunda áratugarins en klauf sig endanlega út úr fyrirtækinu árið 2005. Ástæðan fyrir þessari afstöðu Toyota og annarra bílaumboða voru m.a. ábyrgðar- og þjónustumál, Breytingar voru álitnar uppspretta vandræða.

„Ég kom á þeim tíma úr MBA-námi í Bandaríkjunum, þar sem áherslan var öll á að hlusta á viðskiptavini og mæta þörfum hans. Markmiðið var skýrt, að gera viðskiptavini Toyota ánægðustu viðskiptavini landsins í bílgreininni. Það féll því illa að þessu að taka stóran viðskiptavinahóp og neita að leita lausna fyrir hans þarfir.  Ég talaði því fyrir og leitaði lausna, það tók á annað ár en með stuðningi og áræðni eigenda stofnuðum við Toyota aukahluti 1990,“ segir Emil.

„Með margvíslegum átökum bættum við þjónustu og ímynd Toyota á Íslandi. Með reglulegum þjónustukönnum fengum við endurgjöf hvað þyrfti að laga og bæta. Markaðshlutdeild okkar óx mjög hratt og árið 1993 við nálguðumst við að fjórði hver bíll sem væri seldur væri Toyota. Þá gerðum við ímyndarkönnun meðal Íslendinga með úrtaki úr Þjóðskrá. Þá var Toyota Land Cruiser draumabíll 30% svarenda og þar á eftir kom Mercedes með 20%. Ég þakkaði það að hluta til okkar vinnu í að svara þörfinni fyrir öfluga jeppa á Íslandi. En þessar breytingar sem við gerðum höfðu ekki verið hannaðar af Toyota-móðurfélaginu sem átti allan rétt á notkun á nafni og merki þess. Því breyttum við nafninu í Arctic Trucks.“

Árið 2005 lætur Emil af störfum hjá Toyota, þá sem forstjóri Toyota á Íslandi, og skömmu seinna kaupir Magnús Kristinsson Toyota. Með í för Emils út úr félaginu er Arctic Trucks. „Hafandi stýrt bílaumboði skildi ég vel þörfina fyrir „lifetime management“ á hverju módeli. Nýir fólksbílar eru spennandi í þrjú, fjögur ár þangað til nýtt módel kemur. Í jeppum er þetta mun lengri tími og því þörf á að halda bílnum spennandi með nýjungum. Innan Toyota höfðum við notað Arctic Trucks á mjög áhrifaríkan hátt til að halda hverju módeli spennandi þar til nýtt módel kom. Ég sá fyrir mér að þessi þörf væri klárlega til staðar víða. Á sínum tíma náðum við hátt í 40% af nýjum Toyota Hilux inn í breytingar áður en hann fór út og 25% af Land Cruiser. Ég hugsaði að fyrst Toyota býr til 700.000 Hilux á ári og ef við næðum bara 1% þá væru það 7.000 bílar. Við sáum því gríðarleg tækifæri í þessu,“ segir Emil.

„Okkur gekk ágætlega árið 2007 en svo kom bara hrun og við lendum í mikilli klemmu. Á þeim tíma vorum við með smá starfsemi í Noregi, aðallega í tengslum við herinn. Við náðum mörgum góðum litlum samningum. Síðan eltum við mjög stóran samning, sem tók rosalega orku, bæði að ná honum og afhenda. Í útboðinu stóðu eftir þrjú fyrirtæki: Risafyrirtækin Daimler og BAE Systems og Arctic Trucks,“ segir Emil og skellir upp úr. „Við settum á þessum tíma allan fókus í þetta.“

Tók tæknikunnáttuna á annað stig

Verkefnið varð þó aldrei jafn umfangsmikið og til stóð. „Þetta er eiginlega bara viðhaldsverkefni í dag. Þetta áttu að vera miklu fleiri bílar samkvæmt rammasamningi til fjögurra ára með tíu ára þjónustu. Norðmenn fara út úr Afganistan skömmu eftir að við byrjum að afhenda þessa bíla  og þurfa þeir ekki lengur á þessum bíl að halda. Við þurftum því að afskrifa á annað hundrað milljónir í þróunarkostnað. Það var harður biti.“

Fyrirtækið tók því nýja stefnu og er í dag ekki með neina áherslu á að þjónusta heri. „Það má samt sem áður segja að þrátt fyrir að þetta hafi verið erfitt þá tók þetta tæknigetu félagsins á allt annað stig, sem núna er að skila okkur mjög spennandi árangri í beinu samstarfi við bílaframleiðendur.“ Á stuttum túr um höfuðstöðvar Arctic Trucks varð mér ljóst að hér er ekki um hefðbundið raunhagkerfisfyrirtæki að ræða, sem skrúfar saman hluti og selur. Arctic Trucks er fullkomin blanda hugvits og handverks. Eða kannski hugverks og handvits – fyrirtæki með svipaðan þankagang og flaggskipin Össur og Marel. Hjá fyrirtækinu starfa um 140 manns víðsvegar um heiminn.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .