K Apartments ehf., sem rekur gistiþjónustu fyrir ferðamenn víða um borg, var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur á föstudag sýknað af ríflega 34 milljón króna kröfu Staðarfjalls ehf., félagi Skúla Gunnars Sigfússonar. Krafan var til komin vegna vangoldinnar leigu en sýknan var byggð á aðildarskorti þar sem röngum aðila var stefnt vil varnar.

Samningssamband aðila málsins komst á í nóvember 2010 þegar Sjöstjarnan, því félagi var síðar skipt upp í Staðarfjall og Papbýlisfjall, og K Apartments undirrituðu leigusamning um Skólastræti 1 og 1b og Þingholtsstræti 2-4. Árið 2015 tók K People ehf., dótturfélag K Apartments, við skuldbindingunni samkvæmt leigusamningnum en slíkt framsal var heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Þrátt fyrir framsalið hefur Staðarfjall, sem og Sjöstjarnan þar áður, ávallt gefið reikninga út á móðurfélagið.

Með brotthvarfi ferðamanna síðasta vor hrundu féllu tekjur gistiheimilisins einnig. Í nóvember síðastliðnum fékk félagið heimild til fjárhagslegrar endurskipulagningar en tekjur höfðu þá fallið um ríflega þrjá fjórðu milli ára. Engin leiga hafði verið greidd vegna mars til september 2020 fyrir utan að 20 milljónir höfðu verið greiddar inn á skuldina gegnum leigutryggingu um miðjan september. Dómkrafan hljóðaði því upp á rúmar 54 milljónir auk dráttarvaxta mínus innáborgunin.

Taldi dótturfélagið skelina eina

Staðarfjall byggði kröfu sína á því að samninga bæri að efna og að Covid-19 gæti ekki leyst skuldarann undan efndaskyldu sinni. K Apartments benti aftur á móti á framsalið á leigusamningnum og þá staðreynd að K People hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta í byrjun árs, að kröfu Staðarfjalls, þar sem það hafði ekki greitt leigu. Það leiddi af gjaldþrotaúrskurðinum að Staðarfjall ætti kröfu á dótturfélagið og að ekki væri hægt að beina henni á móðurfélagið.

„Það liggur í eðli hluta- og einkahlutafélagaformsins að ábyrgð á skuldbindingum slíkra félaga takmarkast af þeim úrræðum, tekjum eða eignum, sem félagið sjálft býr yfir eða hefur aflað sér, t.d. með tekjumyndandi starfsemi eða framlagi hluthafa og eftir atvikum með utanaðkomandi tryggingum, s.s. veðtryggingum eða ábyrgðum þriðja aðila. Í viðskiptum við slíka aðila, með takmarkaðri ábyrgð, felst því á stundum áhætta sem viðsemjendur verða að meta hverju sinni og bregðast við telji þeir þörf á að takmarka áhættu sína á móti, eða eftir atvikum láta viðskipti hverju sinni hreinlega eiga sig. Takmörkuð ábyrgð hefur vart þýðingu ef henni er ekki fylgt þegar raunverulega reynir á hana,“ segir í dóminum.

Á því var meðal annars byggt af hálfu Staðarfjalls að framsalið á leigusamningnum hefði í raun aðeins verið til málamynda. Ársreikningar K People ehf. bera til að mynda með sér að engin starfsemi hafi verið í félaginu, tekjur núll, rekstrargjöld innan við 20 þúsund og eignir og skuldir engar. Félagið sjálft hefði því aldrei verið fært um að greiða húsaleiguna og K Apartments því hinn raunverulegi viðsemjandi.

Sýknað vegna aðildarskorts

„Meginreglan verður talin sú, sbr. framangreint, að ef leigusamningur felur með afdráttarlausum hætti í sér að leigutaki geti framselt hann öðrum aðila, í þessu tilviki skyldum aðila þ.e. dótturfélagi, og að slíkt framsal þurfi ekki samþykki leigusala til að öðlast gildi, feli slíkt framsal í sér aðilaskipti eða skuldskeytingu í skilningi samninga- og kröfuréttar. Nýr aðili taki þá við réttindum og skyldum gagnvart leigusala samkvæmt fyrir fram samþykki hans og fyrri samningsaðili sé þá laus undan skyldum sínum nema annað sé sérstaklega tiltekið,“ segir í dóminum.

Þar sem það hefði ekki verið gert væri K People réttur skuldari og engin gild rök að lögum hefðu verið færð fyrir því að móðurfélagið hefði tekið skylduna á sig. Þegar af þeirri ástæðu var K Apartments sýknað sökum aðildarskorts. Málskostnaður var felldur niður.

Í framhjáhlaupi má nefna það að lögmaður K Apartments var Sveinn Andri Sveinsson. Sem kunnugt er hafa hann, í starfi sínu sem skiptastjóri EK1923 ehf., og fyrrnefndur Skúli, eigandi þess félags, verið tíðir gestir á dagskrá dómstólanna og síðum fjölmiðla undanfarin ár. Það varð einnig raunin nú en þó með þeirri breytingu að Skúli var til sóknar.