Á laugardaginn opnaði þriðja Sveinsbakaríið í borginni, í Hraunbænum þar sem Kornið var áður til húsa, en fyrir hefur bakaríið verið til húsa á Arnarbakka og í Skipholtinu.

Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Kornið lokað öllum útsölustöðum sínum, en þegar mest lét var bakaríið með sölustaði á 14 stöðum í borginni. Rekstrarfélag Kornsins, Gullakur ehf. var úrskurðað gjaldþrota 17. janúar síðastliðinn.

Segja forsvarsmenn Sveinsbakarís að vonum framar hafi gengið fyrsta opnunardaginn í Hraunbænum á laugardag, og þakka þeir Árbæingum sérstaklega fyrir mótttökurnar á facebook síðu fyrirtækisins.

„[M]á segja að við áttum við lúxus vandamál að stríða þegar vörunar byrjuðu að klárast rétt upp úr hádegi,“ segir m.a. á síðunni og að búið sé að bæta við bökunarlistann. „Troðfull búð að allskonar bollum (Snickers t.d) og sérútbúnum tertum eftir Hilla Hjall. (After Eight- Frönsk- PekanPæj-Súkkulaði-peruterta með karamellukeim).“

Sveinsbakarí er eitt elsta bakarí landsins, stofnað árið 1908, og var það í fyrstu staðsett á Bræðraborgarstíg, en flutti síðar á Vesturgötu. Í dag eru eigendur þess hjónin Hjálmar Jónsson bakarameistari, sem hóf störf í félaginu 16 ára gamall en keypti það síðar, og Ragnhildur Guðjónsdóttir.