Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS) munu leita réttar síns fyrir dómstólum vegna einhliða riftunar félagsins SBK ehf. nú ABK ehf., sem er í eigu Kynnisferða, á samningi um áætlunarferðir á leiðum 55 og 89 í almenningsvagnakerfi Strætó bs. og átti að gilda til byrjun árs 2020.

Sambandið leita nú allra allra leiða til að tryggja að strætóferðir með leiðum 89, á milli Sandgerðis, Garðs og Reykjanesbæjar, og 55, á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar, verði haldið úti með viðunandi hætti þar til samningar við nýjan þjónustuaðila nást, að því er segir í fréttatilkynningu.

Forsaga málsins er sú að eftir útboð var gengið til samninga við SBK ehf. sem hóf akstur í byrjun árs 2015 á áðurnefndum leiðum. SBK sleit sem fyrr segir samningnum einhliða þann 29.09 síðastliðinn með þeim skýringum að það hefði reiknað tilboðið vitlaust og þar með væru allar forsendur brostnar.

Í samningnum kemur skýrt fram að ekki sé hægt að rifta honum einhliða nema til verulegra eða ítrekaðra vanefnda af hálfu gagnaðila komi. Slíkt er ekki raunin. Því munu SSS sækja rétt sinn fyrir dómstólum. SSS harma þá stöðu sem upp er komin sem bitnar harkalega á íbúum Suðurnesja og farþegum sem nýta sér leiðir 55 og 89.

Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum munu leitast eftir því að halda úti eins góðri þjónustu og mögulegt er á þessum leiðum eða þar til samið verður við nýjan þjónustuaðila. Ekki er þó víst að hægt verði að halda úti jafn tíðum ferðum og síðustu þrjú ár eða sem áætlanir gera ráð fyrir.