Saksóknarar í Þýskalandi höfðu hendur í hári svikahrapps og gerðu upptæka um 8 milljarða króna virði af rafmyntinni Bitcoin úr höndum þeirra. Saksóknararnir standa þó frammi fyrir stóru vandamáli, því hrappurinn vill ekki gefa þeim upp lykilorðið sem þarf til að komast yfir rafmyntina. Reuters greinir frá þessu.

Svikahrappurinn var dæmdur til fangelsisvistar fyrir brot sín og hefur þegar setið af sér dóminn. Hann hefur í gegnum allt ferlið haldið lykilorðinu leyndu og hefur þýska lögreglan gert ítrekaðar tilraunir til að komast yfir rafmyntina með hinum ýmsu leiðum, án árangurs. Um er að ræða yfir 1.700 Bitcoin.

Bitcoin rafmyntir eru oft á tíðum varðveittar inni á stafrænum veskjum sem eru dulkóðuð. Þar af leiðandi er þrautinni þyngri að nálgast innihald slíkra veskja án þess að vita lykilorðið að þeim.

Bitcoin-hrappurinn sat inni í rúm tvö ár fyrir brot sín, fyrir að hafa í leyfisleysi niðurhalað búnaði, í fjölda tölva, sem grefur eftir Bitcoin rafmyntum.

Saksóknarar telja líkur á að hrappurinn viti hreinlega ekki lykilorðið sjálfur og hafa fullvissað almenning um að hann geti með engu móti nálgast rafmyntina sjálfur.