Jordan Belfort, sem leikinn var af Leonardo DiCaprio í kvikmyndinni Wolf of Wall Street, hefur lögsótt framleiðendur myndarinnar fyrir sviksemi og fer fram á 300 milljónir dollara í skaðabætur. Þetta kemur fram í frétt Variety .

Óhætt er að segja að um málið sé allt heldur kaldhæðnislegt þar sem Belfort sveik um 200 milljónir dollara út úr viðskiptavinum sínum með vafasömum hlutabréfaviðskiptum á tíunda áratugnum byggir telur að sviksemi Red Granite Pictures, framleiðanda myndarinnar og Riza Aziz forstjóra fyrirtækisins sé mun umfangs meiri en þau sem fjallað var um í myndinni.

Meint sviksemi snýr að því að kvikmyndin var að mestu fjármögnuð af ágóða úr einu stærsta fjársvikamáli sögunnar sem varðar 1MDB fjárfestingasjóðinn sem var í eigu malasíska ríkisins. Í gegn um sjóðinn stal meðal annars Jho Low um 4,5 milljörðum dollara frá malasíska ríkinu en Belfort telur sig ekki hafa haft neina hugmynd um að kvikmyndin væri fjármögnuð með illa fengnu fé þegar hann seldi Red Granite réttinn að sögu sinni.

Aziz hefur verið ákærður í Malasíu fyrir spillingu og er sakaður um að hafa stolið um 248 milljónum dollara úr 1MDB en stjúpfaður Aziz, Najib Razak hrökklaðist úr embætti forsætisráðherra landsins þegar upp komst um málið.

Í lögsókninni segir að Belfort hafi talið Aziz vera að segja sannleikan þegar hann fullvissaði Belfort um að fjármagnið á bakvið myndina kæmi frá lögmætum leiðum, m.a. frá efna miklum einstaklingum og Goldman Sachs en fjárfestingabankinn hefur legið undir ákærum vegna 1MDB. Þá segir einnig að hefði Belfort vitað hvaðan peningarnir raunverulega kæmu hefði hann aldrei selt Red Granite réttinn að sögu sinni.

Að mati Matthew Schwartz, lögmanns Red Granite, stendur hins vegar ekki steinn yfir steini í lögsókn Belfort. Í yfirlýsingu frá því á fimmtudag segir Scwartz að lögsóknin sé ekkert annað en örvæntingarfull og gífurlega kaldhæðnislegt tilraun til þess að til þess að fá meira út úr samkomulagi sem hafi verið það fyrsta á lífsleið Belfort sem gerði hann efnaðan og frægan á löglegan hátt.