Sala á innlendu svínakjöti jókst um heil 28% í október í ár miðað við árið á undan. Bændablaðið segir frá þessu.

Þessi söluaukning er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess hve neikvæð umræða um svínakjöt átti sér stað í þjóðfélagsumræðunni á þessum tímapunkti.

Fréttastofa RÚV hafði þá sagt frá því að í sumum tilfellum fengju gyltur að dúsa í svo þröngum básum að þær gætu ekki rétt úr fótunum. Það var Matvælastofnun sem gerði úttekt á íslenskum svínabúum.

Í þessum tölum er aðeins talað um íslenska framleiðslu og sölu. Auk þessarar auknu sölu voru flutt inn um 200 tonn af erlendu svínakjöti í október.

Samkvæmt nýjustu tölum Búnaðarstofu hefur heildarkjötframleiðsla aukist  um 2,1% milli ára. Hún er þá tæplega 30 þúsund tonn.