Frumkvöðlafyrirtækið Cruise, sem hannar sjálfkeyrandi bíla og er að mestum hluta í eigu General Motors, hefur svipt hulunni af fyrsta bíl sínum sem hannaður er til að geta keyrt án bílstjóra. BBC greinir frá þessu.

Bílinn, sem hefur fengið nafnið Cruise Origin, var framleiddur af Honda, en Honda á einnig hlut í frumkvöðlafyrirtækinu. Hvergi er að finna hefðbundin staðalbúnað líkt og stýri, pedala og annan slíkan stjórnbúnað í bílnum, enda gerir hann ekki ráð fyrir bílstjóra, einungis farþegum.

Upphaflega stóð til að bílinn yrði kynntur til leiks á síðasta ári. Að sögn forsvarsmanna Cruise er hugsunin á bakvið bílinn að eignarhald hans sé dreift og margir geti því samnýtt hvern bíl.

Ekki hefur enn verið upplýst um hvenær bíllinn fer í almenna framleiðslu né hve mörg eintök verði framleidd.