Gengi íslensku krónunnar veiktist á þriðjudag um 3,08% gagnvart evru og þarf að fara mörg ár aftur í tímann til að finna jafn mikla veikingu á einum degi. Á sama tíma veiktist krónan gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum. Nam veikingin 2,77% gagnvart Bandaríkjadal, 2,77% gagnvart pundinu og 3,06% gagnvart dönsku krónunni.

Viðskiptablaðið leitaðist við að fá skýringar á þessari veikingu krónunnar. Helstu skýringarnar voru að fáir smáir aðilar á á markaði hafi verið að selja krónur. Markaðurinn væri grunnur og þess vegna þyrfti lítið til að hreyfa hann. Markaðsaðilar voru flestir sammála um að nokkur taugatitringur væri til staðar á markaðnum vegna óvissu um inngrip Seðlabankans þegar krónan væri að veikjast. Hjarðhegðun hafi að einhverju leyti átt sér stað sem hafi gert veikinguna enn ýktari.

Veikingin gekk að mestu til baka í gær þegar gengi krónunnar styrktist á nýjan leik. Styrktist krónan um 2,42% gagnvart evru, 2,12% gagnvart Bandaríkjadal, 1,82% gagnvart pundi og 2,44% gagnvart dönsku krónunni.