Félög í ríkiseigu fengu vikufrest frá 12. febrúar til að svara hvernig þau brugðust við tilmælum um hófsemd í launum sem send voru á þau í byrjun árs 2017, og hafa þau nú svarað að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins .

Þann 12. febrúar síðastliðinn sendi Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra bréf til stjórna fyrirtækja í ríkiseigu og Bankasýslu ríkisins vegna launakjara framkvæmdastjóra félaganna.

Í bréfinu var óskað upplýsinga um hvernig brugðist hafi verið við tilmælum sem beint var til stjórnanna í janúar 2017 um launaákvarðanir og starfskjör framkvæmdastjóra félaganna.

Í tilmælunum hafði því verið beint til stjórna félaganna að launaákvarðanir yrðu varkar og að forðast yrði að hækka laun mikið á stuttu tímabili með tilvísun til mikilvægis stöðugleika á vinnumarkaði.

Stjórnum félaganna var gefinn vikufrestur til að svara, en enn hafa ekki borist svör frá þremur félögum, það er félaginu Eignarhlutir ehf. og Vísindagarðurinn, en í báðum félögum er enginn framkvæmdastjóri. Svo er ólaunaður framkvæmdastjóri í þriðja félaginu, Öryggisfjarskipti ehf.

Félögin sem um ræðir eru:

  • Bankasýsla ríkisins

Bankasýslan segir m.a. í bréfi sínu, sem dagsett er 21. febrúar að tæpir tveir sólarhringar séu liðnir frá því að stofnuninni bárust svör frá Íslandsbanka og Landsbankanum við erindi hennar til bankanna í kjölfar bréfs Bjarna.

  • Eignarhlutir ehf. (enginn framkvæmdastjóri)
  • Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús ohf.

Í bréfinu frá stjórn Hörpu segir að stjórnin hafi ákveðið að bjóða umsækjanda um starf forstjóra í ráðningarferli sem hófst í janúar 2017 1,5 milljón króna mánaðarlaun. Var það hækkun frá því að fyrsti forstjórinn var ráðinn árið 2012 á 1,1 milljón krónur, en um áramótin 2016 til 2017 voru launin komin í 1,28 milljónir. Síðan hafi eini kjararáðs um laun forstjórans komið nokkrum dögum eftir ráðninguna og kveðið á um 1,3 milljónir sem hann hafi tekið. Hins vegar hafi launin verið hækkuð í upphaflegu starfskjörin, 1,5 milljónir tveimur mánuðum eftir að forstjórinn hóf störf. Eftir gagnrýni á launakjörin sem komu fram eftir aðalfund félagsins voru launin lækkuð aftur niður í það sem kjararáð hafði úrskurðað þann 1. júní 2018, en eru nú 1,4 milljónir.

  • Isavia ohf.

Í bréfi félagsins segir að stjórnin hafi fengið úttekt ráðgjafarfyrirtækis um laun á almennum markaði fyrir forstjóra með svipaa veltu og fjárhagslega ábyrgð, sem sagði að launin ættu að vera á bilinu 3,1 til 4,1 milljón króna. Stjórnin hafi þó talið það of mikið stökk að fara upp í neðri mörk þess en þá voru launin 1,75 milljónir króna á mánuði. Þau voru þó hækkuð í byrjun nóvember 2017 í 2,38 milljónir, eða um 36,1%. Í desember 2018 hafi stjórnin síðan ákveðið að endurmeta launin og hækka þau um 2,3% frá 1. janúar sama ár og 3,0% frá 1. maí, í samræmi við almenna kjarasamninga og því hafi heildarlaun forstjórans hækkað um 43,4% frá því að stjórnin tók yfir ákvörðunarvald yfir launum forstjórans á ný. Miðað við þessar hækkanir ættu launin nú að nema 2,5 milljónum króna.

  • Íslandspóstur ohf.

Stjórn Íslandspósts ákvað einnig að leita til ráðgjafa um laun á almennum vinnumarkaði og niðurstaða hans var að mánaðarlaun forstjóra í sambærilegu fyrirtæki og Íslandspósts væri á bilinu 2,7 til 3,6 milljónir króna. Stjórnin segir að hækkun upp í lægri mörk þessarar fjárhæðar hefði verið of mikið stökk og því hafi stjórnin ákveðið undir lok árs 2017 að hækka launin úr 1,4 milljónum í tæpar 1,8 milljónir frá og með miðju sumri sama ár, en síðan upp í nærri 2 milljónir frá og með 1. janúar 2018. Síðan þá hafa launin hækkað um 3,0% frá 1. maí í samræmi við launabreytingar á almennum vinnumarkaði. Miðað við þá hækkun ættu launin nú að nema 2,05 milljónum króna.

  • Landskerfi bókasafna

Stjórn landskerfisins sendi stutt og skorinort bréf til fjármálaráðherra þar sem það segist einfaldlega hafa fylgt sjónarmiðunum í fyrra bréfi ráðherra og hafi hækkað launin um 9,2% á milli 1. janúar 2017 og 1. janúar 2019, eða úr rétt rúmlega 1 milljón króna í rétt rúmlega 1,1 milljón, eða um 93 þúsund krónur.

  • Landsnet hf.

Ekki kemur fram í bréfi stjórnar Landsnets hver heildarlaunin eru hjá forstjóra félagsins, fyrir utan að heildarlaun hans voru 29.856 þúsund krónur á síðasta ári, eins og fram komi í ársskýrslu fyrirtækisins, sem þýði að launin eru að meðaltali rétt tæplega 2,5 milljónir króna. Hins vegar er sagt að launin hafi verið lækkuð þegar ákvörðunin var færð undir stjórn Kjararáðs eftir 1. maí 2010, en eftir það hafi þau fylgt almennum launahækkunum.

  • Landsvirkjun

Í bréfi stjórnar Landsvirkjunar segir einnig að úrskurður kjararáðs frá því í febrúar 2010 hafi laun forstjóra fyrirtækisins verið lækkuð verulega. Að öðru leiti er ekkert sagt um launin eins og þau eru núna, nema að breyting hafi verið gerð á laununum þann 1. júlí 2017, eftir að stjórnin hafi fengið vald yfir þeim á ný, en þau hafi verið óbreytt frá þeim tíma að öðru leyti en því að bifreiðahlunnindi hafi hækkað 1. janúar 2018 þegar skipt var um bifreið úr 13 ára gamalli bifreið.

  • Matís

Textinn í bréfi Matís er mjög stuttur og skorinorður: „Laun forstjóra Matís voru ákvörðuð af Kjararáði og þau hækkuðu síðast 1. maí 2017 og hafa ekki breyst síðan.“

  • Neyðarlínan

Laun forstjóra Neyðarlínunnar eru 1,55 milljónir króna eftir 23% hækkun frá 1,26 milljóna króna launum, en hækkunin tók gildi þann 1. júlí 2017, sama dag og úrskurður kjararáðs hætti að gilda. Síðan samið var við forstjórann árið 2008 um 920 þúsund króna laun hafa þau hækkað um 57%.

  • Nýr Landspítali ohf.

Stjórn Nýs Landspítala segist hafa farið eftir leiðarlínum um hóflega en samkeppnishæfa launastefnu og því hafi föst mánaðarlaun framkvæmdastjóra NLSH ofh. verið óbreytt í 30 mánuði, og í samræmi við ákvörðun kjararáðs, frá júní 2016. Stjórnin hafi síðan ákveðið í upphafi þessa árs að hækka launin í samræmi við launavísitölu, en að öðru leiti kemur heildarlaunagreiðslan ekki fram í bréfinu.

  • Orkubú Vestfjarða

Heildarlaun Orkubússtjóra eru nú rétt tæplega 1,8 milljónir króna, sem er 18% hækkun frá 1. júlí 2016, þegar þau voru rétt rúmlega 1,5 milljónir, að meðtöldum 41 einingu í yfirvinnu á mánuði. Í maí 2018 hafi launin verið hækkuð um 10% með nýjum launasamningi, en í honum fólst að yfirvinnueiningunum var einnig fjölgað í 50.

  • Rannsókna- og háskólanet Íslands hf.

Mánaðarlaun forstjóra félagsins hafa ekkert hækkað frá 1. júní 2016, en þau eru tæp 832 þúsund krónur á mánuði.

  • Rarik

Forstjóri Rarik er með 1,75 milljónir króna á mánuði, utan stjórnarlauna í þremur dótturfélögum Rarik, sem samtals borga 340 þúsund krónum, svo samanlagt eru laun forstjórans því tæplega 2,1 milljón á mánuði. Launin voru 1,5 milljónir þann 1. júní 2016, en hækkuðu upp í 1,6 milljónir þann 1. júlí 2017 og síðan upp í 1,7 milljónir 1. júlí 2018.

  • Rarik Orkusalan ehf.

Laun framkvæmdastjóra Orkusölunnar voru hækkuð í 1,65 milljónir króna 1. júlí 2018, sem er hækkun um 10%, á sama tíma og tekið er fram að vísitala launa hafi hækkað um 6,3%. Frá 1. júlí 2017 höfðu launin verið 1,5 milljónir sem var 9,3% hækkun frá ákvörðun kjararáðs frá 1. júní 2016, sem hljóðaði upp á tæplega 990 þúsund krónur auk 40 eininga viðbótargreiðslu upp á tæpar 383 þúsund krónur, alls 1,37 milljónir króna. Flest bréfin taka fram að launahækkanirnar hafi verið undir hækkun launavísitölu, en í bréfi stjórnar Orkusölunnar er sagt að hækkunin sé hófleg umfram launavísitölu í fyrra skiptið sem hækkaði um 7,3% á tímabilinu og svo 10% í síðara skiptið eins og áður sagði.

  • Rarik Orkuþróun ehf.

Framkvæmdastjóri félagsins lét af störfum vegna aldurs stuttu eftir að launin voru ákvörðuð af kjararáði þann 1. janúar 2016 í 1,24 milljónum króna. Ekki var ráðið í starfið heldur runnu verkefni félagsins að stórum hluta inn í orkusöluna.

  • Ríkisútvarpið ohf.

Laun forstjóra RÚV voru ákvörðuð 1,8 milljónir króna frá 1. júlí 2017 en fylgja launavísitölu frá 1. janúar 2018, auk þess sem stjórnin greiðir fyrir og leggur honum til farsíma og fartölvu auk tölvutenginga á heimili hans og áskriftir að helstu fjölmiðlum.

  • Situs ehf (enginn framkvæmdastjóri)
  • Vigdísarholt

Laun framkvæmdastjóra Vigídsarholts ehf. eru sögð hafa tekið mið af meðaltalshækkunum hjá ríkinu samkvæmt samningi BHM, en þau hækkuðu um 6,7% 1. júlí 2018 í samtals 865 þúsund krónur en í 897 þúsund krónur eftir 4% hækkun 1. júní 2018. Auk þess greiðir félagið fyrir tölvu og farsíma forstjórans.

  • Vísindagarðurinn hf. (enginn framkvæmdastjóri)
  • Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.

Í stuttu bréfi frá stjórn Kadeco, er sagt að laun framkvæmdastjórans hafi verið lækkuð um mitt ár 2017, og hafi síðan fylgt almennum kjarasamningshækkunum. Engar fjárhæðir eru tilgreindar í bréfinu.

  • Öryggisfjarskipti ehf. (ólaunaður framkvæmdastjóri)