Malt og appelsín.
Malt og appelsín.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Ölgerð Egils Skalla-Grímssonar hyggst koma með sykurskerta útgáfu af klassísku jólaölsblöndunni Egils Malt og Appelsín fyrir komandi jól að sögn Gunnars B. Sigurgeirssonar aðstoðarforstjóra í Morgunblaðinu í dag.

Gunnar segir sykurlausa drykki hafa orðið sífellt vinsælli síðustu ár og þessi breyting sé liður í vöruþróun til að svara kalli neytenda, þó sumum þyki kannski einkennilegt að breyta þjóðardrykknum.

„Það er mikil sveifla úr sykruðum drykkjum yfir í sykurlausa. Það virðist ekkert lát vera á,“ segir Gunnar en sykraða útgáfan hefur verið vinsæl við jólamatborðið í um 65 ár. „Sú sykurskerta inniheldur 60% minni sykur og hentar þeim sem kjósa heilsusamlegri kosti og minni sykur.“

Gunnar segir nú svo komið að Pepsi Max sé í fyrsta sinn orðinn söluhærri drykkur en Coca-Cola, sem sjáist sérstaklega vel í sölutölum stórmarkaða.

„Fyrir tveimur árum var ársala á Pepsi Max rúmlega 30% minni en á kóki í stórmörkuðum. Núna er ársala Pepsi Max 7% meiri í stórmörkuðum og ég sé að síðustu sex mánuði er það aldrei minna en 10% stærra,“ segir Gunnar.

„Sölutölur síðustu 12 mánuði sýna að sykurlausir drykkir eru 63% af heildarsölunni en fyrir tveimur árum voru þeir 54% af sölunni. Sykraðir drykkir eru á undanhaldi og tólf mánaða uppsöfnuð sala núna er 7% minni á sykruðum drykkjum en hún var fyrir tveimur árum.“

Gunnar segir að sykurnotkun í verksmiðju Ölgerðarinnar hafi minnkað um 34% frá árinu 2016 á sama tíma og framleitt magn hafi aukist, þá aðallega á kolsýrðu vatni.

„Þetta leiðir auðvitað hugann að því að það að skattleggja sérstaklega sykur í gosdrykkjum mun skila litlu því þessi þróun hefur átt sér stað án nokkurrar skattlagningar,“ segir Gunnar.

„Ljóst er að þær tölur sem hið opinbera hefur verið að nefna um það hvað mikinn sykur Íslendingar innbyrða í gegnum gosdrykki eru víðs fjarri raunveruleikanum enda byggjast þær tölur á gömlum upplýsingum sem endurspegla engan veginn stöðuna í þessum málum eins og hún er í dag.“