Ofaná allt annað sem er að hrjá íbúa Venesúela þessa dagana þá tilkynnti ríkissykurframleiðandi landsins að þeir þyrftu að stöðva sykurframleiðslu tímabundið vegna skorts á hrásykri. Kjöraðstæður eru til ræktunar sykurreirs, sem hrásykur er búinn til úr, í landinu.

Skortur á helstu nauðsynjavörum

Coca-Cola í Venezúela lét vita af væntanlegum sykurskorti en til að mega framleiða gosdrykkinn vinsæla þar í landi þarf að kaupa hann af ríkissykurframleiðandanum. Sagðist fyrirtækið munu halda áfram að framleiða drykkinn þangað til sykurbirgðir þeirra munu klárast.

Sykurskorturinn er nýjasta dæmið um neyðarástandið sem er að myndast í landinu þar sem allar helstu nauðsynjavörur eru af skornum skammti, eins og hveiti, egg og mjólk, en einnig er mikill skortur á klósettpappír í Venesúela. Lyfjaskortur er farinn að kosta mannslíf í landinu þar sem Hugo Chaves fyrrverandi forseti þess sagðist ætla að koma á 21. aldar sósíalisma.

Átök forseta og þings

Þrátt fyrir að stjórnarskrárbundin skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort forseti landsins, Nicolas Maduro arftaki Chaves, geti setið áfram hafi verið uppfyllt, hefur hann komið í veg fyrir að hún geti farið fram. Hafa mótmæli brotist út gegn honum í höfuðborginni Caracas. Kennir hann þinginu sem er í höndum stjórnarandstæðinga og erlendum gagnrýnisröddum um vandamál landsins.

Vinnuvikan stytt í sparnaðarskyni

Til að spara rafmagn hefur vinnuvika starfsmanna hins opinbera verið stytt niður í 2 daga sem og áætlað er að margar borgir landsins muni búa við um 4 klukkutíma rafmagnsleysi á dag. Þetta gerist allt í kjölfar þess að efnahagur landsins hefur hrunið en alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir 500% verðbólgu á þessu ári og yfir 1600% á því næsta.

Ríkissjóður stendur jafnframt frammi fyrir miklum fjármagnsskorti eftir lækkun á heimsmarkaðsverði olíu en framleiðsla hennar er megindrifkraftur efnahagslífsins. Horfir svo við að ríkissjóður geti ekki staðið í innflutningi á korni, sykri, kartöflum og öðrum gæðum sem ríkið hefur greitt fyrir hingað til.